Sérfræðilæknar verði ekki útundan

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/​Hari

„Það er heilbrigðisstefna í smíðum og um hana verður víðtækt samráð, bæði í heilbrigðiskerfinu og á vettvangi stjórnmálanna, eins og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar raunar. Ég geri ráð fyrir því að lögð verði fram þingsályktunartillaga á vorþingi,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, innt eftir viðbrögðum við grein þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins um stefnu hennar varðandi heilbrigðiskerfið. Svandís segir að betur fari á því að málin séu rædd með öðrum hætti en í gegnum fjölmiðla.

Greinina rituðu þau Jón Gunnarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Brynjar Níelsson, en í henni segja þau að svo virðist sem stefna Svandísar sé að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu og draga á sama tíma úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana. Þessu séu þau ósammála og telja þau að bjóða eigi út verkefni sem sjálfstætt starfandi fyrirtæki á heilbrigðissviði geti leyst. 

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í Silfrinu í Ríkisútvarpinu í dag að greinin væri hrein og bein árás gegn heilbrigðisráðherra.

Til standi að semja við sérfræðilækna

Svandís segir í samtali við mbl.is að skýr vísbending sé um það í nýju fjárlagafrumvarpi að ætlunin sé að semja við sérfræðilækna.

„Það stendur til að semja við sérfræðilækna. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir milli níu og tíu milljörðum í samninga við sérfræðilækna, þannig það ætti að vera nokkuð skýr vísbending um að það standi til að semja,“ segir hún. 

„Varðandi greinina sem slíka, þá finnst mér fara betur á því að jafnaði að fólk tali saman öðruvísi en gegnum fjölmiðla. Það á ekki síst við ef um er að ræða álitamál í samstarfi. Mér finnst alltaf betra þegar fólk gerir það þannig, en þau hafa valið aðra leið. Það er augljóst,“ segir Svandís og segir aðspurð að hún óttist ekki að fyrrnefndir þingmenn setji sig upp á móti stefnunni. „Ég hef enga ástæðu til að ætla það,“ segir hún.

Peningunum sé skynsamlega varið

„Undir mínum málaflokki er þessi stefnumótun sem fjallar um grundvallaratriði í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að við ráðstöfum opinberu fé með skynsamlegum hætti og að sjúklingurinn sé í forgrunni. Það er kjarninn í stefnunni, en þar vinnum við líka með ýmsa þætti á borð við mönnunarmál, vísindarannsóknir, kaup á heilbrigðisþjónustu og ýmislegt sem við höfum fengið ábendingar um,“ segir Svandís og nefnir að nýjasta dæmið séu ábendingar frá Ríkisendurskoðanda um að heilbrigðiskerfið sé of brotakennt.

„Það leiðir okkur í stöðu þar saman fara biðlistar á aðra höndina og oflækningar á hina þar sem heildarsýn skortir. McKinsey hefur líka bent á þetta. Þó heilbrigðiskerfið skili sannarlega góðum árangri, þá þurfum við að gera enn betur því það fara gríðarlega miklir peningar í heilbrigðisþjónustuna úr sameiginlegum sjóðum. Við þurfum að vita betur þegar kemur að opinberri heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem við ákveðum að kaupa af einkaaðilum, að þeim peningum sé skynsamlega varið,“ segir hún.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert