Hátíðarfundurinn kostaði 87 milljónir

Frá hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí síðastliðinn. Þingmenn ganga …
Frá hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 18. júlí síðastliðinn. Þingmenn ganga niður Almannagjá. mbl.is/Hari

Heildarkostnaður við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum liggur nú endanlega fyrir og hefur verið birtur á vef Alþingis. Þar segir að kostnaðurinn, tæpar 87 milljónir króna, hafi verið nokkuð umfram áætlun, en upphafleg kostnaðaráætlun, sem miðaðist við framkvæmd sambærilegs viðburðar fyrir 18 árum, hljóðaði upp á 45 milljónir króna.

Umframkeyrslan í kostnaði er skýrð á vef Alþingis og sögð vera einkum vegna þess að „tekin var ákvörðun um að hafa lýsingu og hljóð af bestu gæðum þar sem atburðurinn var í beinni útsendingu,“ en haft var í huga að upptaka af fundinum myndi varðveitast til framtíðar sem heimild um sögu þjóðarinnar.

Raunar hafði legið fyrir að kostnaðurinn myndi af þessum sökum fara fram úr upphaflegri áætlun og Helgi Bernódusson skrifstofustjóri benti á það í samtali við mbl.is að kröfur til gæða sjónvarpsútsendinga væru mun meiri í dag en um aldamót.

Á vef þingsins er kostnaðurinn sundurliðaður. Mest fór í að setja upp palla og bæta gangvegi fyrir gesti hátíðarfundarins, eða rúm 31 milljón króna. Þó er tekið fram á vef Alþingis að vinnan sem fór í að bæta og laga göngustíga á Þingvöllum muni áfram nýtast gestum viðburðarins.

Uppsetning palla, lagfæring göngustíga og lýsing vógu þyngst í kostnaðinum.
Uppsetning palla, lagfæring göngustíga og lýsing vógu þyngst í kostnaðinum. mbl.is/Hari

Lýsingin var svo næststærsti kostnaðarliðurinn, en hún ein og sér kostaði rúmar 22 milljónir króna, en sviðið þar sem hátíðargestir sátu var að hluta yfirbyggt og þar fyrir ofan var fjöldi öflugra ljóskastara.

Nokkur fjöldi boðsgesta erlendis frá sótti fundinn og greiddi Alþingi hótelkostnað þeirra fyrir tvær nætur. Boðsgestirnir voru alls 14 talsins, en ekki var greitt fyrir annað uppihald þeirra hér á landi né kostnað við fylgdarlið þeirra.

Boðsgestir voru alls fjórtán talsins, þeirra á meðal Pia Kjærsgaard, …
Boðsgestir voru alls fjórtán talsins, þeirra á meðal Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, sem hér situr við hlið íslensku forsetahjónanna. mbl.is/Hari

Alls nam kostnaður Alþingis vegna ferðakostnaðar rúmum 1,4 milljónum króna, en auk hótelkostnaðar boðsgestanna voru allir gestir hátíðarfundarins auk þess fluttir frá Reykjavík og til Þingvalla með nokkrum rútum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert