Tómas og Ólafur Már hljóta fjölmiðlaverðlaun

Fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytis og Nátturuverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti voru veitt í …
Fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytis og Nátturuverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti voru veitt í dag. Frá vinstri: Kjartan Kjartansson, Sunna Ósk Logadóttir, Sveinn Runólfsson, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Ólafur Már Björnsson, Ragna Sara Jónsdóttir og Jón Kaldal. mbl.is/Eggert

Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson hlutu í dag fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Þá fékk Sveinn Runólfsson Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, fyrir að hafa um áratuga skeið staðið í framvarðasveit í baráttunni fyrir vernd og endurreisn vistkerfa landsins.

Verðlaunin voru veitt í tengslum við Dag íslenskrar náttúru, sem var í gær.

Var það niðurstaða dómnefndar að veita þeim Tómasi og Ólafi Má fjölmiðlaverðlaunin fyrir myndefni, upplýsingar og greinaskrif um íslenska náttúru á síðustu tólf mánuðum. Segir í rökstuðningi nefndarinnar að þeir félagar hafi heimsótt fjölmarga staði og sótt þangað nýtt efni, bæði ljósmyndir og myndskeið og nýtt sér samfélagsmiðla og aðra fjölmiðla til að koma þessu efni á framfæri. „Tómas og Ólafur Már hafa verið óþreytandi við að halda íslenskri náttúru á lofti í fjölmiðlum, hefðbundnum sem óhefðbundum, á síðastliðnu ári og er það samdóma álit dómnefndar að með því hafi þeir haft bein áhrif á að lítt þekktar náttúruperlur, svo sem fossaröð á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar, hafa komist í almenna umræðu,“ sagði í niðurstöðu dómnefndar.

Dómnefndina skipuðu þau Ragna Sara Jónsdóttir sem var formaður, Jón Kaldal og Valgerður Anna Jóhannsdóttir.

Einnig voru tilefnd þau Sunna Ósk Loga­dótt­ir, blaðamaður mbl.is, fyr­ir greina­flokk­inn Mátt­ur­inn eða dýrðin, og Kjart­an Kjart­ans­son, blaðamaður á Vísi.is, Bylgj­unni og Stöð 2, fyr­ir um­fjöll­un um lofts­lags­mál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert