Samþykkt að tryggja framgang borgarlínu

Drög að rammaskipulagi fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur-vestur-tengingu …
Drög að rammaskipulagi fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur-vestur-tengingu frá Lækjartorgi upp á Ártúnshöfða og norður-suður-tengingu um Vatnsmýri skulu vera tilbúin í vor og tillaga tilbúin næsta haust. mbl.is/Hari

Borgarstjórn samþykkti rétt í þessu að fela umhverfis- og skipulagssviði að hefja fjögur verkefni til að tryggja framgöngu borgarlínu sem hágæðakerfis almenningssamgangna.

Þau verkefni sem sviðið á að hefja er að klára breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir 2010 til 2030, hefja skipulagsvinnu rammaskipulags fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna, áætlun og skipulagsvinnu fyrir fjölbreytta húsnæðisuppbyggingu meðfram þróunarásum borgarlínu og tillögur að reitum innan áhrifasvæðis borgarlínu þar sem unnið verður sérstaklega með hagkvæmar og nútímalegar lausnir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur.

Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna var samþykkt með 12 atkvæðum gegn 9 eftir að umræður um hana höfðu staðið yfir í hátt í fjórar klukkustundir. Tveir borgarfulltrúar sátu hjá.

Tillaga um borgarlínu.

Drög að rammaskipulagi fyrir hágæðakerfi almenningssamgangna í sérrými með austur-vestur-tengingu frá Lækjartorgi upp á Ártúnshöfða og norður-suður-tengingu um Vatnsmýri skulu vera tilbúin í vor og tillaga tilbúin næsta haust.

Samkvæmt tillögunni verður verkefnastjóri ráðinn inn á skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar sem vinnur sérstaklega með hönnun samgöngumannvirkja og samráð. Þá verður ráðinn verkefnastjóri rammaskipulags sem vinnur sérstaklega að húsnæðismálum með tengingu inn á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Framkvæmdir við fyrstu verkhluta í tengslum við borgarlínu eiga að verða tilbúnar í útboð árið 2020.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Ekki er með neinu móti hægt að samþykkja þessa tillögu enda upphaf á óvissuferð. Þá er tillagan í mótsögn við annað sem samþykkt hefur verið hingað til. Ekki liggur fyrir hver á að standa að uppbyggingu og rekstri „borgarlínu“, en áður hefur verið talað um samstarfsverkefni sveitarfélaganna. Þá liggur ekki fyrir kostnaðarmat en ljóst er að tillagan kostar hundruð milljóna þó ekkert verði framkvæmt. Enn á að ráða millistjórnendur hjá borginni þrátt fyrir ábendingar um vaxandi bákn,“ segir í bókuninni.

„Þá er vægast sagt ótrúverðugt að halda því fram að hér verði unnið að hagkvæmum íbúðum fyrir ungt fólk þegar fyrir liggur stefna borgarinnar um sérstakan skatt; innviðagjald sem áformað er að leggist á nýjar íbúðir á þessu svæðum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslur á úrbætur í almenningssamgöngum en allar áætlanir um úrbætur undanfarið hafa brugðist. Bæta þarf tíðni almenningssamgangna, nútímavæða og færa þær inn í framtíðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert