„Þetta var rán­dýr ferð“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni …
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ásamt Ingu Sædal, formanni flokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég var að koma úr minni fyrstu utanlandsferð á vegum þingsins, af velferðarnefndarfundi Norðurlandaráðs í Nuuk í Grænlandi. Ég spyr mig eftir þessa ferð hverju hún skilar og í hvaða tilgangi hún hafi verið farin,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

„Ég verð að gera athugasemd við það að ég gisti á dýrasta hóteli sem ég hef nokkurn tímann gist á á ævinni. Það er meira en tvöfalt dýrara en nokkurt lúxushótel sem ég hef komist inn á,“ sagði þingmaðurinn enn fremur og spurði hvers vegna í ósköpunum Alþingi hafi sent tíu manns, sjö þingmenn og aðstoðarfólk, á fundinn sem hafi eingöngu verið haldinn í þeim tilgangi að samþykkja áður gerðar ályktanir eða reyna að gera einhverjar orðalagsbreytingar.

„Ég spyr líka, ef ég er að borga þarna meira en helmingi dýrara hótel en þyrfti að vera og við erum að borga helmingi meira fyrir Þingvelli og hátíðina þar en þyrfti: Er þetta gegnumgangandi á þinginu? Þurfum við ekki að fara að endurskoða hlutina?“

Tímabært að skoða kostnað við utanlandsferðir

Þingmaðurinn sagði að á sama tíma væri verið „að setja inn í fjárlög hungurlús, 1% hækkun á persónuafslætti aukalega, 500 kall. Það sýnir sig að 1% lækkun á 37% þrepaskatti hefði skilað 14 milljörðum til að nota í persónuafsláttinn og það hefði skilað þeim sem lægst eru settir 15.000 kr. á mánuði en ekki 500 kr.“

Guðmundur sagði að tímabært væri að fara yfir það hvort allar utanlandsferðir á vegum þingsins og kostnaðurinn í kringum þær væri nauðsynlegur. „Þetta var rándýr ferð en það sem er undarlegast við hana og verður sennilega mest í minningunni haft er að hún var í boði Alþingis og það eina sem stendur sennilega upp úr er rándýr hálsbólga og kvef.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert