Dagbækur Ólafs Ragnars varpa ljósi á Icesave

Ólafur Ragnar afhenti Þjóðskjalasafni 250 kassa af dagbókum til varðveislu.
Ólafur Ragnar afhenti Þjóðskjalasafni 250 kassa af dagbókum til varðveislu. mbl.is/Golli

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, segir að dagbækur og minnisbækur sem hann hélt í forsetatíð sinni, og hefur nú afhent Þjóðskjalasafni, muni meðal annars varpa ljósi á það af hverju hann tók ákvörðun um að synja Icesave-frumvarpinu staðfestingar á sínum tíma. Þetta kom fram í þættinum Með Loga sem sýndur er í Sjónvarpi Símans í kvöld.

Ólafur sagðist hafa haldið dagbækur frá því hann var í menntaskóla og hann hefði haldið dagbókarskrifum sínum áfram eftir að hann varð forseti. Bækurnar hafi hann allar geymt ásamt minnisfærslum. Sagði hann þessar bækur geyma frásagnir af öllum helstu samtölum sem hann átti, bæði við ráðamenn þjóðarinnar og erlenda ráðamenn, á meðan hann var forseti.

Hann hefur nú gert samning við Þjóðskjalasafn um varðveislu bókanna, en um 250 kassa af skjölum er að ræða sem fluttir voru frá Bessastöðum eftir að hann lét af embætti forseta Íslands.

Margar útgáfur af yfirlýsingum vegna Icesave

„Ég skrifaði undir samning við Þjóðskjalasafn um að það verði, í samráði við mig, ákveðin tímamörk sett á þetta. Þó að ég hafi ekki setið við skriftir á ævisögu þá hef ég á undanförnum árum og áratugum skrifað mörg þúsund blaðsíður af frásögnum af samtölum og atburðum sem ég hef tekið þátt í og það er mjög forvitnilegt efni.“

Ólafur sagði það verða mikið verkefni, annaðhvort fyrir hann sjálfan eða aðra að vinna úr öllum skjölunum. „Þarna eru líka uppköst að yfirlýsingum, meðal annars margar útgáfur af uppköstum að yfirlýsingum mínum í Icesave-málinu. Það tók mig margar vikur að átta mig á því hvernig ég ætti að formúlera það. Þessu hef ég öllu haldið til haga. Menn hafa verið með alls konar kenningar um hvers vegna ég tók þessar ákvarðanir. Skjölin sem nú er verið að flokka í þjóðskjalasafni þau munu veita svör við því öllu saman.“

Strauss-Khan sagði Ólaf hafa rétt fyrir sér

Ólafur ræddi töluvert um Icesave-málið í viðtalinu og hvernig öll Evrópa ásamt Bandaríkjunum snerist gegn okkur vegna málsins. Rifjaði hann upp hvernig hann hefði nánast einn varið málstað Íslands í fjölmiðlum erlendis. Hann sagðist einnig hafa farið á lokaða fundi með helstu seðlabankastjórum og fjármálaráðherrum heims á árlegri viðskiptaráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss þegar Icesave-málið var í hámarki. Sagði hann það hafa verið mikla prófraun að sitja á móti þeim á klappstólum í lokuðu herbergi og flytja málstað Íslands.

Eftir einn slíkan fund hafi Dominique Strauss-Khan, þáverandi framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, komið til hans og sagt að þetta væri allt rétt hjá honum. Það væri stórt vandamál í stjórn sjóðsins að Evrópuríkin væru á móti því að hjálpa Íslandi þó að starfsfólk sjóðsins vildi það.

Kínverjar stóðu með Íslandi gegn ofsóknum Evrópuríkja

Ólafur sagði einnig frá því þegar hann skrifaði forseta Kína bréf og óskaði kurteislega eftir samræðu um einhvers konar aðstoð vikurnar eftir hrun. Bréfið var afhent sendiherra Kína á Bessastöðum á laugardagskvöldi. Að sögn Ólafs hófu hann og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, í kjölfarið að skrifa bæði forsætisráðherra og forseta Kína bréf vikum saman, sem sendiherrann svaraði svo munnlega. Þetta hafi leitt til þess að gerður var gjaldeyrisskiptasamningur á milli Seðlabanka íslands og Seðlabanka Kína. Sagði hann ýmis Evrópuríki hafa litið upp í kjölfar heimsóknar seðlabankastjóra Kína til landsins og hugsað með sér að það væri eins gott að fara að sinna Íslendingum aftur.

Þá sagðist hann hafa fengið að heyra það frá seðlabankastjóranum í heimsókn sinni til Kína árið 2016, hvernig forseti Kína hefði gefið þau fyrirmæli að fulltrúi Kína í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skyldi ávallt styðja Ísland gegn ofsóknum Evrópuríkja.

„Hvort sem mönnum líkar það betur eða eða verr í umræðunni um Kína, þá skal því haldið til haga að þegar Bandaríkin og öll ríki Evrópu voru á móti okkur þá voru Kínverjar tilbúnir, á mjög fágaðan hátt, að senda þau skilaboð til umheimsins að Ísland skipti máli, án þess að hafa óskað eftir neinu í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert