Vilja eyða flöskuhálsum og skoða gjaldtöku

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vilja hefja …
Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vilja hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Viljayfirlýsingin var undirrituð á BSÍ í dag. mbl.is/​Hari

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lýsa yfir vilja til að hefja viðræður um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kom fram á fundi sem samgönguráðherra boðaði til á BSÍ í dag.

Unnið verði að því að eyða flöskuhálsum til að bæta umferðaflæði og efla umferðaröryggi, en „jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum,“ að því er segir í yfirlýsingunni

Er markmiðið með yfirlýsingunni að samkomulagi um fjármagnaða áætlun um fjárfestingar í stofnvegum og kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við tillögur sem kynntar voru í febrúar á þessu ári, en samkomulaginu er ætlað að verða hluti af langtímaáætlun ríkis í samgöngumálum, sem gilda á til ársins 2033, fjármálaáætlunar ríkisins fyrir árin 2020-2024 og fjárfestinga sveitarfélaganna. Sá fyrirvari er þó gerður á samkomulaginu að Alþingi og þær sveitastjórnir sem að því eiga aðild veiti því samþykki sitt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, kynnir viljayfirlýsinguna.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, kynnir viljayfirlýsinguna. mbl.is/​Hari

Samkvæmt viljayfirlýsingunni á að stefna að „sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna.“

Sameiginlegum verkefnahópi verður falið að vinna að forgangsröðun, fyrirkomulagi fjármögnunar og útfærslu verkefna, en horfa á til allra samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu og til tenginga við höfuðborgarsvæðið í heild sinni.

„Tekið verður tillit til markmiða samgönguáætlunar 2019-2033, aðgerðaráætlunar  í loftslagsmálum 2018-2020, þ.m.t. orkuskiptum, svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og áætlunar um loftgæði á Íslandi 2018-2029,“ að því er segir í yfirlýsingunni.

Meðal þeirra gagna sem henni liggja til grundvallar eru tillögur stýrihóps samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu frá febrúar 2018. Einnig liggur til grundvalla tíu ára samningur samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins og samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um tilraunaverkefni um bættar almenningssamgöngur, sem og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015-2040.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni á að stefna að „sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og …
Samkvæmt viljayfirlýsingunni á að stefna að „sjálfbæru, kolefnishlutlausu borgarsamfélagi og öflugri almenningssamgöngum í takt við loftslagsáætlun stjórnvalda og áherslur sveitarfélaganna.“ mbl.is/​Hari

Leiði líka málefni Sundabrautar til lyktar

Stendur vilji ráðuneytis og sveitarfélaga til að ræða nýjan samning um „eflingu almenningssamgangna jafnframt því að ráðist yrði í framkvæmdir“.

Þannig yrðu unnið að því að eyða flöskuhálsum til að bæta umferðaflæði og efla umferðaröryggi og eru ráðherra og sveitastjórnarmenn sammála um að „bæta almenningssamgöngur og að framkvæmdir við hágæða almenningssamgöngur hefjist á árinu 2020“, að því er segir í yfirlýsingunni. „Jafnframt verði skoðaðar nýjar fjármögnunarleiðir m.a. með nýrri gjaldtöku ríkisins og gjaldtökuheimildum til handa sveitarfélögunum.“

Verkefnahópi, undir stjórn Hreins Haraldssonar fyrrverandi vegamálastjóra verður falið að leiða viðræðurnar, sem og að leiða málefni Sundabrautar til lyktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert