Dýralæknar þurfi ekki að tala íslensku

Dýralæknar þurfa ekki lengur að hafa vald á íslensku til …
Dýralæknar þurfa ekki lengur að hafa vald á íslensku til þess að starfa hér á landi, samkvæmt nýju frumvarpi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Ekki verður lengur gerð krafa um að dýralæknar sem starfa á Íslandi tali íslensku, samkvæmt frumvarpi sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti fyrir ríkisstjórninni í morgun.

Í lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr hefur verið krafa um vald á íslensku, en frá því verður fallið samkvæmt þessu nýja frumvarpi ráðherrans.

Reynst hefur erfitt að manna stöður dýralækna hér á landi með íslenskumælandi dýralæknum. Í vor birtist álit frá umboðsmanni Alþingis þar sem fundið var að því að ráðningar Matvælastofnununar á erlendum dýralæknum væru ekki í samræmi við lög.

Dýralæknafélag Íslands hafði kvartað til umboðsmanns vegna ráðninga Matvælastofnunar.

Samkvæmt Þóri Hrafnssyni, upplýsingafulltrúa í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, hefur vandinn verið árstíðabundinn, en dýralækna vantar oft til eftirlitsstarfa í kringum sláturtíð að hausti.

Með því að falla frá þessari kröfu verða gerðar sömu kröfur til dýralækna og þeirra lækna sem hlúa að okkur mannfólkinu, en engar kröfur eru gerðar um það í lögum að læknar sem starfa á Íslandi hafi vald á íslenskri tungu.

Dýralækna vantar oft til eftirlitsstarfa á sláturtíð. Myndin er úr …
Dýralækna vantar oft til eftirlitsstarfa á sláturtíð. Myndin er úr safni og tekin í sláturhúsi Norðlenska. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert