„í 43 ár var pabbi minn fórnarlamb“

Kristín Anna var með tárin í augunum þegar blaðamaður náði …
Kristín Anna var með tárin í augunum þegar blaðamaður náði tali af henni. mbl.is/Hari

„Ég vildi fá að sjá það svart á hvítu á blaði, með opinberum stimpli, að þetta væri búið. Að það væri enginn hali, enginn hluti af málinu sem væri skilinn eftir eða einhverju bætt við. Reynslan hefur kennt mér það að taka ekki öllu sem gefnu. En nú er þetta búið,“ segir Kristín Anna Tryggvadóttir, dóttir Trygga Rúnars Leifssonar, sem var í Hæstarétti í dag sýknaður af því að hafa banað Guðmundi Einarssyni árið 1974, ásamt Sævari Ciesielski. 

Hún er með tárin í augunum eftir að hafa farið yfir dóminn með Jóni Magnússyni, lögmanni Tryggva. Hann lofaði henni að nú væri þetta búið. Kristín segist vera í hálfgerðu spennufalli. Það skýri tárin.

Það var hún sem steig fram með dagbækur föður síns í viðtali á Stöð 2 árið 2011, en dagbækurnar, sem Tryggvi hélt á meðan hann var í Síðumúlafangelsinu, voru meðal mikilvægra nýrra gagna sem lögð voru fram við endurupptöku málsins. Tryggvi lést sjálfur árið 2009.

Kristín á erfitt með að lýsa því hvernig henni líður eftir að mannorð föður hennar hefur loksins verið hreinsað. „Auðvitað er þetta sigur en ég er líka alveg hundfúl. Þetta er ekkert réttlæti. Jú, það er komin sýkna í málinu en það breytir því ekki að í 43 ár var pabbi minn fórnarlamb. Og við þurftum að koma hingað í hans nafni og svara fyrir það.“

Hún segir óréttlætið enn vera til staðar að einhverju leyti. „Það er fullt af fólki sem hefur ekki þurft að svara til saka. Ég er ekki að segja að það eigi að hengja fólk upp í hæsta tré, en það er fólk sem hefur komist í gegnum þetta með því að segja: „ég man það ekki“ og maður upplifir það sem mikið óréttæti. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að það verður aldrei hægt að taka það upp eða skoða,“ segir Kristín, en rannsakendur í málinu báru fyrir sig minnisleysi varðandi ýmis atriði fyrir dómi á sínum tíma. Það virtist til dæmis enginn muna hvernig það kom til að dómfelldu í málinu voru bendlaðir við það í upphafi. Hvaðan ábendingin kom.

„Með því að setja þessa slaufu á málið fyrir mig og mína fjölskyldu þá eru aðrar fjölskyldur þarna úti sem þurfa að taka skell á móti. Þannig þetta er allt á vogarskálum. Núna erum við aðeins ofar og fjölskyldur Guðmundar og Geirfinns aðeins neðar. Hvert fara þau með það? Þurfa þau ekkert að sækja rétt sinn og láta rannsaka þetta mál? Mér finnst halla á þau og mér finnst það sárt. Ég myndi ekki vilja vera í þeirra sporum.“

Aðspurð hvort henni finnist erfitt að faðir hennar hafi ekki lifað þennan dag, að fá mannorð sitt hreinsað, svarar hún neitandi. „Ég er bara glöð með það. Ég held að hann hefði verið reiður yfir þessu óréttlæti. Miklu reiðari en ég. Ég held líka að ef pabbi og Sævar væru á lífi þá væru við ekki hér í dag. Það þurfti þá undir græna torfu til að geta komist á þennan stað. Ég held að pabbi væri fúll og þætti aftur brotið á sér, eins og staðan er í dag.“

Jón Magnússon lögmaður ræðir við fjölskyldu Tryggva Rúnars.
Jón Magnússon lögmaður ræðir við fjölskyldu Tryggva Rúnars. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert