Klofinn dómur snýr við nauðgunardómi

Konan og maðurinn höfðu bæði verið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum …
Konan og maðurinn höfðu bæði verið á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2015 og átti atvikið sér stað í tjaldi hans í Herjólfsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Landsréttur sneri í dag við dómi héraðsdóms sem áður hafði dæmt ungan mann í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga fyrrverandi kærustu sinni á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum árið 2015. Klofnaði Landsréttur, en tveir dómarar töldu að snúa ætti dómnum við, meðan einn taldi rétt að staðfesta dóm héraðsdóms. Var maðurinn því sýknaður.

Maðurinn og konan voru á þeim tíma sem atvikið átti sér stað 18 og 17 ára. Höfðu þau áður verið í sambandi í sjö mánuði og fram kemur í dóminum að í nokkra mánuði fram að þjóðhátíð áfram sofið saman þrátt fyrir að vera hætt í sambandi. Þau hittust svo þessa helgi í Herjólfsdal og fóru saman í tjald mannsins.

Bæði voru samhljóða að mestu um aðdraganda þess að þau fóru saman í tjaldið og hófu samfarir. Hins vegar sagði konan að í umrætt skipti hefði maðurinn beitt mun meiri hörku, slegið hana fast, stungið putta í endaþarm hennar, kyrkt hana, klipið í brjóst hennar og kallað hana illum nöfnum.

Konan mætti á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum daginn eftir og gaf skýrslu vegna kynferðisbrots. Í ljós kom meðal annars að hún var með mar á hálsi, vör, rasskinn, læri og brjósti. Þá var hún með húðrispur á háls og baki auk þess sem skoðun leiddi í ljós eymsli við endaþarmsop.

Fyrir héraðsdómi sögðu þau bæði að þau hefðu prófað ýmislegt í kynlífi saman áður og það hafi verið gert með fullum vilja beggja. Þá hafi þau bæði stungið upp á ýmsum kynlífsathöfnum, meðal annars endaþarmsmökum, sem þau hafi stundað saman. Þá sagði hann einnig að henni hafi líka að vera kyrkt lítillega. Taldi hann að mögulega hefði hann verið aðeins harðhentari í þetta skiptið vegna ölvunar, en að hann hafi talið verknaðinn vera með vilja beggja.

Ekki er byggt á því í ákæru að maðurinn hafi þvingað konuna til samræðis með ofbeldi, heldur að meint nauðgunarbrot felist í ofbeldi og ólögmætri nauðung við samfarir. Meirihluti dóms í Landsrétti taldi ljóst með hliðsjón af fyrri samskiptum þeirra, meðal annars kynlífs þar sem þau hafi stundað endaþarmsmök, sé því ekki slegið föstu að hafið sé yfir allan vafa að ásetningur hafi staðið til þess að maðurinn beitti konuna meiri hörku en hún væri samþykkt.  Er það þrátt fyrir að ljóst sé út frá áverkum á konunni að maðurinn hafi beitt hana verulegu ofbeldi í umrætt skipti.

Er maðurinn af þeim sökum sýknaður og allur sakar- og áfrýjunarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.

Sigurður Tómas Magnússon, dómari við Landsrétt, skilaði sératkvæði í málinu og sagði að miðað við þá áverka sem væru á konunni þyrfti að liggja fyrir skýrt samþykki konunnar. „Ofbeldið var raunar svo gróft að það kallaði á skýrt samþykki brotaþola fyrir því að vera beitt slíku ofbeldi. Þannig braut ákærði með augljósum hætti gegn sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi brotaþola meðan á samförum þeirra stóð,“ segir í sératkvæði hans. Þar er þó tekið fram að atvik sem tengist því að maðurinn hafi stungið putta í endaþarm hennar, með hliðsjón af fyrri samskiptum þeirra, geti ekki talist nauðgun. Gróft ofbeldi og skortur á skýru samþykki kalli að hans mati hins vegar á að sakfellingardómur héraðsdóm eigi að standa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert