Hafinu stafar hætta af hlýnun jarðar

Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar. Það …
Lífríki hafsins stafar ógn af hlýnun og súrnun sjávar. Það vitum við, þrátt fyrir að rannsóknir á áhrifum súrnunar séu skammt á veg komnar. mbl.is/Styrmir Kári

Núverandi skuldbindingar þjóða heims í loftslagsmálum nægja ekki til þess að draga úr alvarlegum afleiðingum sem hljótast munu af hlýnun andrúmsloftsins, hafsins og súrnun sjávar, segir breski vistfræðingurinn dr. Carol Turley í samtali við mbl.is.

Hún hélt í dag erindi um súrnun sjávar í húsakynnum Hafrannsóknastofnunar og dró upp dökka mynd af því hvernig hlýnun og súrnun sjávar, verði ekki gripið í taumana, geti ógnað lífríki hafsins með ófyrirséðum afleiðingum.

Sjórinn súrnar vegna efnabreytinga sem verða í hafinu þegar koldíoxíð úr andrúmsloftinu berst í hafið og eru rannsóknir á áhrifum þessa tiltölulega skammt á veg komnar. Þó hefur verið sýnt fram á að áhrif súrnunar í hafinu hafi þegar haft slæmar afleiðingar, til dæmis fyrir kóralrif og lindýr á borð við samlokur og snigla sem eru með kalkskel, en súrnun sjávar hefur þegar dregið úr kalkmettun í hafinu.

Þessum áhrifum er lýst í skýringarmyndbandinu hér að neðan.

„Ég tel að hver einasta þjóð og hver einasta manneskja á jörðinni ætti að hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga og súrnunar sjávar,“ segir Turley, sem tekur nú þátt í því að skrifa sérstaka skýrslu um hafið fyrir loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna, IPCC.

„Við erum öll hluti af alheimskerfinu og það þurfa allir að leggjast á eitt, hvert einasta land og hver einasta manneskja, til þess að koma í veg fyrir hörmungar,“ segir Turley.

Súrnun sjávar gerist hraðar í köldum sjó en heitum og því sagði Turley að það væri sérlega mikilvægt fyrir Íslendinga, í ljósi þess hve háð við erum nýtingu fiskistofnanna undan ströndum landsins, að fylgjast vel með og taka stöðuna alvarlega.

Dr. Carol Turley segir að grípa þurfi til aðgerða og …
Dr. Carol Turley segir að grípa þurfi til aðgerða og að núverandi skuldbindingar ríkja muni ekki koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar af hlýnun jarðar og súrnun sjávar. mbl.is/Hari

Turley segir að ef við viljum að lífið á jörðinni haldi áfram á þann veg sem við erum vön, verðum við að ráðast í að breyta orkukerfum, samgöngukerfum og matvælaframleiðslunni sem allra fyrst.

„Við þurfum í raun að grípa til aðgerða núna. Við höfum 10-12 ár, rúman áratug, til þess að breyta því hvernig við lifum og koma í veg fyrir gríðarlegar afleiðingar sem hlýnun jarðar og súrnun sjávar mun hafa. Núna er tækifærið og við verðum að grípa það,“ segir Turley.

Enn margt óvitað um súrnun sjávar

Hafrannsóknastofnun hefur fylgst með magni koldíoxíðs í hafinu í kringum Ísland allt frá árinu 1983. Samfara þeim rannsóknum hóf stofnunin svo síðar að rannsaka sýrustig sjávar og hafa þau gögn, bæði héðan og annars staðar frá í heiminum, verið „afskaplega mikilvæg“ til að sýna fram á það að súrnun sjávar væri að eiga sér stað í raun og veru, að sögn dr. Hrannar Egilsdóttur, sjávarvistfræðings hjá Hafrannsóknastofnun.

„Í rauninni var það ekki fyrr en þessar tímaseríustöðvar höfðu verið í gangi í nokkurn tíma, tíu ár, sem vísindasamfélagið fór að sjá að sjórinn væri raunverulega að súrna í yfirborðinu og sérstaklega hérna við Ísland af því að sjórinn er svo kaldur,“ segir Hrönn í samtali við blaðamann.

Rannsóknir á súrnun sjávar eru þó skammt á veg komnar, að sögn Hrannar, enda hófust þær ekki að ráði fyrr en upp úr aldamótum. 

Dr. Hrönn Egilsdóttir fjallaði stuttlega um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á hafinu …
Dr. Hrönn Egilsdóttir fjallaði stuttlega um rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á hafinu umhverfis Ísland á fundinum í dag. mbl.is/Hari

„Vísindasamfélagið fer af stað upp úr árinu 2000 og byrjar að rannsaka áhrif súrnunar sjávar. Áhrif hitastigs hafa verið rannsökuð miklu miklu lengur og eru að vissu leyti einfaldari og af þeim sökum vitum við miklu meira um hvað gerist þegar hlýnar, en talsvert lítið um hvað gerist þegar súrnar,“ segir Hrönn, en þó er vitað að súrnunin hefur í för með sér flóknar breytingar á hafinu.

„Ef við horfum bara á fiskistofnana og spyrjum spurningarinnar: „Hvernig munu fiskistofnarnir okkar, sérstaklega nytjastofnanir, verða fyrir áhrifum af súrnun sjávar?“ þá getum við í raun og veru engu svarað enn, því við vitum ekki nákvæmlega hvernig áhrif súrnunar munu koma fram, en við vitum að áhrifin geta ekki verið jákvæð, hvernig sem þau verða,“ segir Hrönn.

Sem áður segir byrjuðu ekki að birtast vísindagreinar um áhrif súrnunar fyrr en eftir aldamót og því eðlilegt að margt sé enn óvitað.

„Það tekur tíma að þróa svona rannsóknir og besta þær þannig að þeir gefi okkur sem mestar og bestar upplýsingar og það er fyrst núna síðustu árin sem við erum að sjá mjög háþróaðar og flottar rannsóknir sem gefa okkur raunverulega hugmynd um hvað er að fara að gerast í framtíðinni. Þessar rannsóknir geta sagt okkur ýmislegt, til dæmis það að áhrif af súrnun sjávar geta verið óvænt. Margir héldu til dæmis að fiskar væru gjörsamlega ónæmir fyrir súrnun sjávar upphaflega, en það eru sumir fiskistofnar sem eru það ekki,“ segir Hrönn og nefnir til dæmis að lirfur sumra fiskistofna komist síður á legg í súrum sjó.

Erindi dr. Turley var vel sótt af sérfræðingum og áhugamönnum …
Erindi dr. Turley var vel sótt af sérfræðingum og áhugamönnum um loftslagsmál. mbl.is/Hari

„Svo hefur verið sýnt fram á að heyrn og lyktarskyn geta orðið fyrir áhrifum af súrnun sjávar, en þetta er ekki algilt. Sumir fiskar virðast ekki vera mjög viðkvæmir, aðrir virðast vera það, en það er mjög lítið af rannsóknum búið að gera nú þegar. Við höfum einhverja hugmynd um að áhrifin gætu orðið einhver, en hver þau verða nákvæmlega og á hvaða fiskistofna, við höfum ekki hugmynd um það,“ segir Hrönn.

Allir að taka við sér

Turley lagði áherslu á að að grípa þyrfti til aðgerða sem allra fyrst og minnka losun koldíoxíðs af mannavöldum. En hvernig gengur vísindamönnum, eins og Hrönn, að sannfæra stjórnvöld um nauðsyn þess að grípa til aðgerða?

„Ég myndi segja að það gangi upp og ofan. Á einum tíma eru ákveðin stjórnvöld og svo breytast stjórnvöld með tímanum eftir því sem kosningar verða og svo framvegis og kannski erfitt að halda langtímadampi, en hins vegar hefur maður verið að sjá það að ekki einungis hafa stjórnvöld verið að taka rosalega mikið við sér, heldur líka iðnaðurinn,“ segir Hrönn og bætir við að til dæmis hafi sjávarútvegsfyrirtæki verið að kalla eftir meiri upplýsingum um ástand sjávar.

„Það þarf að vera meiri þekking á því sem er að gerast og það er ekki alveg nógu mikil þekking nú þegar, en hins vegar eru allir að róa í sömu átt og það vantar bara svona herslumuninn,“ segir Hrönn.

„Það er erfitt að standa í svona rannsóknum af því að þær eru oft dýrar og það útskýrir líka af hverju við vitum svona lítið, því það er ekki búið að vera mikið fjármagn í svona rannsóknir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert