Kristinn biður konur afsökunar

Kristni var boðið að segja upp sjálfur, eða láta skólann …
Kristni var boðið að segja upp sjálfur, eða láta skólann segja honum upp. mbl.is/Árni Sæberg

Kristinn Sigurjónsson, lektor við tækni- og verkfræðibraut Háskólans í Reykjavík (HR), biðst afsökunar á ummælum sínum sem leiddu til þess að honum var sagt upp stöðu sinni við HR. „Ég þarf að biðja heiðarlegar konur afsökunar á því að hafa misboðið þeim með þessu orðfæri,“ segir Kristinn í samtali við mbl.is.

Málið á rætur að rekja til ummæla Kristins á lokaðri Facebook-síðu sem nefnist Karlmennskuspjallið, en þar sagði hann m.a. konur troða sér inn á vinnustaði þar sem karlmenn vinna. Þá sagði hann að konur eyðileggðu vinnustaðina því karlmenn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerlingar, allt annað er áreiti“. 

DV greindi fyrst frá.

Segist ekki vera illa við konur

Í samtali við mbl.is segir hann að ummælin hafi hann birt í tengslum við stærri umræðu á síðunni. Hann segir að nú á tímum séu karlmenn ótt og títt ásakaðir fyrir ofbeldi og áreiti og oft sé „verið að draga upp áragömul, jafnvel fimmtíu ára gömul dæmi, og menn dregnir fyrir dómstól götunnar“.

„Með viðhorfin eins og þau eru í dag, þá vil ég síður vinna með konum eða hafa þær nærri mér,“ er meðal þess sem Kristinn segir í ummælum við mynd sem annar aðili deildi á síðunni.

Hann segir að ekki eigi að túlka ummælin hans sem að honum sé illa við konur. „Ég á dóttur og ég á konu, og ég var rétt áðan að tala við mína fyrrverandi konu. Það er allt mjög gott á milli okkar allra.“

Á fimmtudag var Kristinn boðaður á fund með mannauðsstjóra HR þar sem honum voru boðnir tveir valkostir; að segja upp sjálfur eða láta skólann segja honum upp. Hann segist ekki hafa ákveðið hvorn valkostinn hann muni taka en segist vera að hugsa málið út frá praktískum sjónarmiðum, eins og hvernig reglur um atvinnuleysisbætur horfi við muninum á formi uppsagnar.

Óánægður með viðbrögð skólans

Aðspurður hvað honum þyki um viðbrögð stjórnenda HR segir Kristinn, sem á 64 ára afmæli í dag: „Ég á ekkert mikla möguleika. Það er vitað mál að þegar fólk er komið yfir fimmtugt þá á það ekkert mjög auðvelt með að fá vinnu. Að gefa mér ekki möguleika til að lýsa mínum sjónarmiðum eða gefa mér áminningu finnst mér ekki bjóðandi háskóla sem á ekki bara að virða, heldur dýrka tjáningarfrelsi og hugsunarfrelsi.“

Eiríkur Sigurðsson, upplýsingafulltrúi HR, staðfesti að Kristinn hefði sagt upp störfum hjá skólanum en vildi ekki tjá sig efnislega um málið.

Búast má við að til skamms tíma verði eitthvert rask á kennslu í þeim áföngum sem Kristinn hafði áður umsjón með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert