Fari í heildarendurskoðun á braggamálinu

Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir. Fulltrúar meirihlutans vilja …
Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir. Fulltrúar meirihlutans vilja að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að vinna „heildarúttekt á öllu ferli endurgerðarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Fulltrúar meirihlutans í borgarráði ætla á næsta borgarráðsfundi að leggja fram tillögu um að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að vinna „heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans“ við Nauthólsveg 100 fól í sér.

„Enginn angi skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda,“ segir í tillögunni. Þá er óskað eftir því að innri endurskoðun borgarinnar komi einnig með tillögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir í færslu á Facebook í dag að endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík sé „alvarlegt dæmi um framkvæmd sem fer langt fram úr áætlun. Fregnir af einstaka reikningum og verkþáttum undanfarna daga kalla augljóslega á skýringar og undirstrika mikilvægi þess að málið er komið í hendur innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar,“ segir hann í færslunni.

Endurgerð braggans við Nauthólsveg hefur verið mjög umdeild, en kostnaður við framkvæmdirnar fór langt fram úr áætlun. Upphaflega var gert ráð fyrir að kostnaðurinn yrði 158 milljónir, en heildarkostnaður varð 415 milljónir.

Fram kom í fréttum RÚV um helgina að hæsti reikningurinn við framkvæmdirnar hljóðaði upp á 105 milljónir króna og þá greindi DV frá því í gær að grasstrá sem gróðursett voru í kringum bygginguna hefðu kostað 757 þúsund krónur og er ástæða kostnaðarins sögð sú að stráin séu höfundarvarin.

Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir. Fulltrúar meirihlutans vilja …
Bragginn var endurbyggður fyrir alls 415 milljónir. Fulltrúar meirihlutans vilja að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að vinna „heildarúttekt á öllu ferli endurgerðarinnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Hafa borgarfulltrúar minnihlutans tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum. Kveðst borgarfulltrúi Miðflokksins og „garðyrkjumaðurinn“ Vigdís Hauksdóttir „aldrei hafa heyrt áður um „höfundarréttarvarin strá“.“ Eyþór Laxdal oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn spyr hins vegar hvort að þetta séu stráin sem fylli mælin.

Þá hefur grasrót Pírata boðað borgarstjórnarflokk Pírata á félagsfund næstkomandi laugardag vegna braggamálsins.

Meirihlutinn hafnaði á síðasta borgarstjórnarfundi tillögu Vig­dís­ar Hauks­dótt­ur um óháða rann­sókn á kostnaðinum við endurgerð bragg­ans og ákvað þess í stað að bragginn yrði hluti af úttekt innri endurskoðunar á verkefnum í tengslum við útboð og innkaup.

Minnihlutinn mótmælti þessu og taldi brýnt að óháð rannsókn færi fram. „Braggamálið er einn stór skandall,“ bókaði fulltrúi Flokks fólksins. „Enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu Reykjavíkur,“ sagði fulltrúi Miðflokksins.

Mbl.is hafði hins vegar eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar og formanni borgarráðs, að meirihlutinn líti svo á að innri endurskoðun borgarinnar sé óháður aðili í borg­ar­kerf­inu og þau líti því svo á að það sé óháð rann­sókn að málið fari þangað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert