HR komi skoðanir lektors ekki við

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður.
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Hari

„Ég hef sent rektor bréf og gefið honum kost á að hverfa frá þessu. Það er dæmalaust að reka eigi mann úr starfi fyrir að hafa látið í ljós einhverja skoðun,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, sem tekið hefur að sér mál Kristins Sigurjónssonar, lektors við Háskólann í Reykjavík.

Eiríkur Jónsson greindi upphaflega frá málinu.

Kristni voru gefnir afarkostir vegna ummæla sem hann lét falla í lokuðum Facebook-hópi. Þar sagði Krist­inn m.a. að kon­ur troði sér inn á vinnustaði þar sem karl­menn vinna. Þá sagði hann að kon­ur eyðilegðu vinnustaðina því karl­menn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerl­ing­ar, allt annað er áreiti“. HR gerði Kristni að segja upp, ellegar yrði hann rekinn.

Jón Steinar segir ummæli Kristins inni á umræddum Facebook-hópi ekki koma háskólanum við og að uppsögnin vegna þeirra sé „háðuglegt frumhlaup“. Hann vonar að rektor sjái sóma sinn í að bakka út úr þessu hratt og örugglega.

„Þetta er orðið einhvers konar ofstæki sem lýtur að því að ef allir hafa ekki einhverja rétttrúnaðarskoðun á einhverju málefni, þá eru þeir óalandi og óferjandi. Í þessu tilfelli virðist vera að Háskólinn í Reykjavík vilji reka mann úr starfi fyrir einhverja skoðun sem hann hefur, sem skólanum kemur bara ekkert við.“

Kristinn hafi réttarstöðu opinbers starfsmanns

Bendir hann einnig á að Kristinn hafi réttarstöðu opinbers starfsmanns vegna þess að hann hafi verið kennari við Tækniskólann áður en skólarnir voru sameinaðir. Það hafi verið tekið skýrt fram í bréfi til Kristins, undirrituðu af báðum rektorum, að hann nyti þeirrar réttarstöðu. „Í því ljósi er enn fjarstæðukenndara að segja honum upp á þeim forsendum. Það er ekki bara það að hann þurfi að hafa brotið af sér í starfi, heldur þarf líka að veita honum áminningu áður en hægt er að grípa til uppsagnar.“

Hvað ef uppsögnin verður ekki dregin til baka?

„Þá fáum ég og minn umbjóðandi að hitta forsvarsmenn skólans fyrir þeim stofnunum sem gera út um mál af þessu tagi, dómstólunum í landinu.“

Uppfært 11. október kl. 09:25: Mbl.is hafði samband við Ara Kristinn Jónsson, rektor HR, sem staðfestir að honum hafi borist bréf frá lögmanni Kristins, en segist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert