Fellt að skoða þátt borgarstjóra

Bragginn í Nauthólsvík.
Bragginn í Nauthólsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Samþykkt var á fundi borgarráðs Reykjavík í dag að fela innri endurskoðun borgarinnar að ráðast í heildarúttekt á öllu ferlinu við endurgerð braggans við Nauthólsvík. Tillagan var lögð fram af fulltrúum meirihlutans í borgarráði; Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar  græns framboðs, Pírata og Viðreisnar. Málið snýst um endurgerð braggans sem hefur kostað 415 milljónir króna og farið langt fram úr kostnaðaráætlun.

Tillagan var svohljóðandi: „Borgarráð samþykkir að fela innri endurskoðun Reykjavíkurborgar að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Enginn angi málsins skal vera undanskilinn og allt skal upplýst í þessu máli frá upphafi til enda. Einnig er óskað eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkur geri tillögur að umbótum í tengslum við það sem aflaga hefur farið og í bága við vandaða stjórnsýsluhætti.“

Sjálfstæðismenn lögðu fram breytingatillögu um að utanaðkomandi aðila yrði falið að sjá um úttektina enda væri innri endurskoðun Reykjavíkurborgar störfum hlaðin. Fyrir utan almenn eftirlitsstörf hefði henni verið falið að gera sérstaka úttekt á Orkuveitu Reykjavíkur sem taka muni nokkra mánuði. Enginn angi málsins ætti að vera undanskilinn og skoða þyrfti málið frá upphafi til enda. Þar á meðal framgöngu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Arnþór

Breytingartillaga sjálfstæðismanna var felld af borgarfulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG. Meirihlutinn lét bóka að málið væri grafalvarlegt og fá yrði allar upplýsingar upp á borðið „til að geta hafist handa við úrbætur á kerfinu svo að koma megi í veg fyrir að svona endurtaki sig“. Innri endurskoðun væri óháð stofnun og fengi utanaðkomandi aðstoð eftir þörfum og meirihlutinn treysti henni til þess að leggja mat á málið.

Tillaga meirihlutans „aumt yfirklór“

Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna lögðu einnig fram bókun þar sem þeir áréttuðu það sem fram kom í breytingatillögu þeirra. Braggamálið væri þess eðlis að mikilvægt væri að fá niðurstöðu í úttekt þess sem fyrst og að hún væri hafin yfir allan vafa. Vigdís Hauksdóttir, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, lagði einnig fram bókun þar sem segir að tillaga meirihlutans sé aumt yfirklór. Innri endurskoðun hafi þegar allar heimildir til rannsóknar á málinu. Meirihlutinn hafi hafnað því að óháður aðili rannsakaði málið.

Kolbrún Baldursdóttir, áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, lagði einnig fram bókun þar sem því er mótmælt að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar verði falið að sjá um rannsóknina á braggamálinu. Innri endurskoðun gæti vart talist óháð vegna ákveðinna tengsla og vegna upplýsinga sem hún hefði haft allan þann tíma sem endurbygging braggans fór fram. Fyrir vikið yrði varla hægt að telja niðurstöður hennar áreiðanlegar.

„Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að grípa inn í byggingarferlið jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti.“

Fyrir vikið væri óraunhæft að innri endurskoðunin ættti nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti. Það muni varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna. Fulltrúar meirihlutans létu að lokum bóka ítrekað traust þeirra í garð innri endurskoðunar: „Við treystum því að kjörnir fulltrúar þekki störf og hlutverk innri endurskoðunar og átti sig á því að hún er óháð og sjálfstæð í sínum störfum.“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert