Banaslys vegna vanvirtrar stöðvunarskyldu

Slysið átti sér stað á Reykjanesbraut að morgni 7. júlí …
Slysið átti sér stað á Reykjanesbraut að morgni 7. júlí 2016. mbl.is/​Hari

Ökumaður vöruflutningabifreiðar virti sennilega ekki stöðvunarskyldu að morgni 7.júlí 2016 þegar hann ók í veg fyrir ökumann á bifhjóli, svo bifhjólamaðurinn beið bana. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Slysið átti sér stað þegar ökumaður bifhjólsins ók í austurátt eftir Reykjanesbraut. Rétt áður en hjólið kom að vegamótum við Hafnaveg var vörubifreið með festivagn ekið inn á Reykjanesbraut í vinstri beygju í veg fyrir hjólið og lést bifhjólamaðurinn samstundis.

Segist hafa stöðvað

Í skýrslunni segir að að sögn ökumanns vörubifreiðarinnar hafi hann stöðvað við vegamótin vegna stöðvunarskyldu og beðið á meðan nokkrar bifreiðar óku hjá, en kvaðst aldrei hafa séð bifhjólið þrátt fyrir að hafa litið vel til beggja átta.

Gögn úr ökurita bifreiðarinnar benda hins vegar til þess að henni hafi verið ekið á um 20km/klst hraða inn á vegamótin án þess að stöðva. Framburðir vitnis rennir stoðum undir þessa niðurstöðu. 

Bifhjólamaðurinn var 34 ára karlmaður og vel útbúinn fyrir aksturinn. Hann var með hjálm, íklæddur marglitum leðurbuxum, leðurjakka, stígvélum og með hanska.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert