„Svei þér Eyþór Arnalds“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir Eyþór Arnalds hamast á …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir Eyþór Arnalds hamast á borgarstjóra í veikindum hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að það geri hana hrygga og hissa, en líka alveg „ótrúlega brjálaða“ að hlusta á Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins, „hamast af öllu afli“ á Degi B. Eggertssyni borgarstjóra vegna braggamálsins svokallaða á meðan Dagur sjálfur er í veikindaleyfi.

Þetta segir þingmaðurinn á Facebook-síðu sinni og spyr hvort ekkert sé heilagt í pólitísku stríði. „Það leikur sér enginn að því að veikjast og þegar um er að ræða eitthvað meira en flensu ætti fólk með vott af sómakennd að taka tillit til þess,“ skrifar Helga Vala og bætir því við að braggamálið sé ekki að fara neitt.

„Þetta er ekki eitthvað sem gufar upp eða veldur stórkostlegu tjóni ef ekki er brugðist við í gær eða dag heldur verður þetta mál líka í næstu viku eða þarnæstu þegar Dagur hefur náð þeim styrk sem hann þarf. Svei þér Eyþór Arnalds,“ segir þingmaðurinn.

Greint var frá því 12. október að Dagur væri kominn í veikindaleyfi, þar sem alvarleg sýking í kviðarholi borgarstjóra tók sig upp að nýju. Síðan þá hafa málefni braggans við Nauthólsveg 100 verið mikið í umræðu fjölmiðla og minnihluti borgarstjórnar verið afar gagnrýninn á verkefnið og raunar fleiri verkefni þar sem framúrkeyrsla hefur orðið frá upphaflegum kostnaðaráætlunum.

Eyþór Arnalds hefur kallað eftir afsögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, þar sem hann sé „framkvæmdastjóri braggamálsins“ og beri á því ábyrgð. Hann svarar Helgu Völu á Facebook og bendir á að hann óski borgarstjóra góðs bata, en það gerði hann vissulega eins og margir aðrir borgarfulltrúar í umræðum á borgarstjórnarfundi í gær.

Eyþór Arnalds á fundi borgarstjórnar í gær.
Eyþór Arnalds á fundi borgarstjórnar í gær. mbl.is/Eggert

Hann segir hins vegar að gagnrýni á meðferð fjármuna snúi engan veginn að veikindum borgarstjóra, Sjálfstæðisflokkurinn hafi gagnrýnt rekstur borgarinnar bæði fyrir kosningar og strax eftir kosningar, svo það sé ekkert nýtt.

Í gær lögðu sjálfstæðismenn fram tillögu um „braggamálið“ í borgarstjórn og vildu að utanaðkomandi aðili tæki að sér úttekt á framkvæmdinni, í stað innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Tillagan kvað einnig á um að „athafnir og athafnaleysi“ borgarstjóra í tengslum við þetta mál bæri að rannsaka.

„Það var fellt. Áttum við sem kjörnir fulltrúar að þegja vegna þess að borgarstjóri er fjarverandi?“ skrifar Eyþór.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert