„Það var fólkið sem bar veiruna“

Pekka Olson, dýralæknir og formaður sænska hundaræktafélagsins sem hér er …
Pekka Olson, dýralæknir og formaður sænska hundaræktafélagsins sem hér er með hundinum Hoffa, segist eiga erfitt með að skilja þær einangrunarreglur sem eru í gildi á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

„Allt mat þarf að fara fram á grundvelli þeirra tíma sem við lifum á núna. Það er mín skoðun,“ segir dýralæknirinn Pekka Olson, sem er formaður sænska hundaræktarfélagsins. Í því samhengi kveðst Olson eiga erfitt með að skilja þær einangrunarreglur sem eru í gildi á Íslandi.

„Ég tel hins vegar að það frumkvæði að fá dr. Preben Willeberg til að hanna nýtt áhættumat sé frábær leið til að gera það, af því að tímarnir hafa breyst,“ bætir hann við. 

Hvatt er til þess í sam­eig­in­legri yf­ir­lýs­ingu sem hundaræktarfélög Norðurlanda sendu frá sér sl. miðvikudag að við yf­ir­stand­andi end­ur­skoðun ís­lenskra regl­na um ein­angr­un hunda sem flutt­ir eru til lands­ins verði annaðhvort hætt að gera kröfu um ein­angr­un og þess í stað not­ast við aðrar aðferðir telj­ist þær full­nægj­andi eða ein­angr­un­ar­tím­inn stytt­ur.

Fram kem­ur í yf­ir­lýs­ing­unni að Hunda­rækt­ar­fé­lag Íslands hafi um ára­bil hvatt ís­lensk stjórn­völd til þess að end­ur­skoða nú­gild­andi kerfi sem geri ráð fyr­ir að inn­flutt­ir hund­ar þurfi að vera í ein­ang­un í fjór­ar vik­ur. Mik­il­vægt sé að tryggja ör­yggi Íslands þegar nýir sjúk­dómar séu annars vegar og full­ur stuðning­ur sé við mik­il­vægi þess. Hins veg­ar verði aðgerðir í þeim efn­um að vera í sam­ræmi við þá áhættu sem fyr­ir hendi er.

Miklar framfarir í bólusetningu og greiningum

Olson, sem var staddur hér á landi vegna fundar norrænu hundaræktarfélaganna, segir miklar framfarir hafa orðið í bólusetningum, greiningaraðferðum og lyfjum gegn ýmiskonar sníklum sem dýr geta borið með sér. „Við höfum allt þetta núna,“ segir Olson og bætir við að öðrum ríkjum Evrópu takist að lifa í samræmi við Evrópureglugerðir um málið.

Olson, sem er kominn á eftirlaun, útskrifaðist sem dýralæknir 1975 og vann hálfa starfsævina við dýralæknarannsóknir hjá sænska landbúnaðarháskólanum, Sveriges Lantbruksuniversitet.

Hann segir áhættu sem fylgi dýrainnflutningi ekki alla vera á sama alvarleikastigi. „Það er áhætta og það er áhætta,“ segir Olson.  

„Ég held að ein mesta hættan hafi alltaf verið hundaæði og í Svíþjóð afnámum við reglur um einangrunarvist fyrir fjölmörgum árum.“ Olson, sem átti raunar sæti í nefndinni sem það gerði, segir afnám einangrunarvistar í Svíþjóð ekki hafa haft nein neikvæð áhrif. „Það gerðist ekkert,“ bætir hann við.

Í Svíþjóð séu engin þekkt tilfelli frá því að einangrunarreglugerðin var afnumin um að hundur með hundaæði hafi komið til landsins. „Það eru þó dæmi um að hvolpum sem eru of ungir til að hafa fengið hundaæðissprautu hafi verið smyglað inn og í þeim tilfellum þarf að aflífa þá. Þá eru þetta líka hundar sem engin staðfesting á bólusetningum liggur fyrir um.“

Mannfólkið, ekki hundar, sem smitaði kettina

Olson bætir við að smygl á hundum sé væntanlega ekki mikið vandamál á Íslandi og kveður hættuna sem stafi af fólki líka geta verið meiri en þá sem stafi af innflutningi gæludýra. Þannig hafi það til að mynda verið í tilfelli parvo-veirunnar sem á níunda áratug síðustu aldar olli á innan við ári sýkingu hjá köttum víða um heim. „Það var ekki fyrir tilstilli hunda sem kettirnir smituðust, heldur mannfólks. Það var fólkið sem bar veiruna.

Eins og er held ég ekki að staðan sé þannig á Íslandi [að meiri hætta stafi af ferðalögum fólks en gæludýrainnflutningi], en hvað alla nýja sjúkdóma varðar getur staðan verið önnur.“

Sjálfur segist hann þeirrar skoðunar að sé núverandi reglugerðum varðandi bólusetningar, orma- og sýklalyf áfram fylgt þá sé einangrunarvist gæludýra óþörf.  

Meðgöngutími flestra sníkla 7-10 dagar

„Reynist niðurstaðan af áhættumati Willebergs hins vegar sú að einhvers konar einangrun sé nauðsynleg þá hlýtur hún alla vega að geta verið styttri,“ segir Olson. Meðgöngutími flestra sníkla og sýkinga sé 7-10 dagar og því ætti 1-2 vikna einangrunardvöl að nægja, greinist ekki sýking sem taka þurfi á. „Komi hins vegar eitthvað í ljós við þá greiningu þá væri einangrunartíminn framlengdur. Það er bara eðlilegt ferli,“ segir Olson.

Eins sé það sín skoðun að eigendum eigi að vera heimilt að heimsækja dýrið meðan á einangrunarvist stendur.

Það sé einnig spurning hversu afgerandi einangrunin þurfi að vera og nefnir Olson sem dæmi að í þeim tilfellum þar sem einangrun reynist nauðsynleg í Svíþjóð sé beitt svonefndri heimaeinangrun. „Þetta er til dæmis gert í þeim tilfellum þar sem hundum, sem ekki reynast með gilda pappíra, hefur verið smyglað til landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert