Ekki nógu hratt brugðist við

Mikið liggur á að klára tvöföldun Reykjanesbrautar.
Mikið liggur á að klára tvöföldun Reykjanesbrautar. mbl.is/​Hari

„Við erum auðvitað harmi slegin yfir þessu slysi. Þetta verður rætt á bæjarstjórnarfundi á miðvikudag, eins og margoft áður, og ég reikna með því að við munum álykta um þetta saman,“ segir Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, um hættulegar aðstæður á Reykjanesbraut og banaslysið sem þar varð í gærmorgun.

Adda María Jóhannsdóttir.
Adda María Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Adda María segir hræðilegt að svona slys þurfi til þess að nýr kraftur fáist í málin. Hún bendir á að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi ítrekað sent frá sér ályktanir og bókanir um málið, sem þó hafi skilað sér í samgönguáætlun. „En ekki á þeim hraða sem við hefðum viljað.“

„Það þarf að flýta framkvæmdum við að klára tvöföldunina. Þetta er leið frá alþjóðaflugvelli til höfuðborgarinnar. Þarna fer fjöldi fólks um og þess á meðal ferðamenn sem þekkja öðruvísi gatnakerfi. Um leið og þrengingin verður myndast hætta,“ segir Adda María.

Hópur fólks hefur boðað til aðgerða og ætlar sér að loka fyrir umferð um Reykjanesbraut í vikunni svo á það verði hlustað.

„Ég skil fólkið og skil þessa afstöðu, en svona aðgerðum fylgir hætta,“ segir Adda María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert