Líklegt að álag og kulnun hafi áhrif

Skúli Helgason, formaður skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar.
Skúli Helgason, formaður skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er þróun sem við tökum mjög alvarlega og þess vegna er eitt helsta forgangsverkefni okkar um þessar mundir að bæta vinnuumhverfi starfsfólks einmitt til að draga úr álagi og þar með veikindum starfsfólks,“ segir Skúli Helga­son, formaður skóla- og frí­stundaráðs Reykja­vík­ur­borg­ar, um aukin útgjöld vegna langtímaveikinda starfsmanna á skóla- og frístundasviði. 

Á árunum 2009-2017 varði Reykja­vík­ur­borg sam­tals um 5,3 millj­örðum (miðað við verðlag 2018) í lang­tíma­veik­indi starfs­manna, aðeins á skóla- og frí­stunda­sviði. Útgjöldin hafa aukist jafnt og þétt frá árinu 2009.

Skúli segir að ekki liggi fyrir formleg rannsókn á því af hverju útgjöldin hafi aukist en telur að þetta megi tengja auknu álagi í starfi. „Það má leiða getum að því að álag og kulnun í starfi hafi áhrif.“

Spurður hvort eitthvað hafi verið gert til að reyna að lækka kostnaðinn segir Skúli að undanfarin tvö ár hafi mikil vinna verið lögð í tillögur til að bæta vinnuumhverfi starfsfólks á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Alls hafi verið varið 2,5 milljörðum króna í þær aðgerðir sem tengist úrbótum á innra starfi og ytri aðbúnaði starfsfólks. 

„Við sjáum jákvæðar vísbendingar um að þessar aðgerðir séu byrjaðar að skila árangri því starfsánægja hefur aukist á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs miðað við viðhorfskönnun meðal starfsmanna sem tekin var í vor.  Þar voru betri niðurstöður en í fyrra á öllum helstu árangursmælikvörðum á skóla- og frístundasviði,“ segir Skúli.

Binda vonir við styttingu vinnuvikunnar

Hann segir að vilji sé til að gera betur með því að taka upp formlegt samstarf við stjórnendur og samtök kennara um leiðir til að draga úr veikindum starfsfólks. „Við erum reyndar þegar komin í samtal við Kennarafélag Reykjavíkur um þessi mál,“ segir Skúli. Hann bætir við að horft sé til þess að fara í formlegt samstarf þar sem leitað verður leiða til að draga úr langtímaveikindum með jákvæðum hvataaðgerðum.

Skúli segir sömuleiðis bundnar vonir við styttingu vinnuvikunnar, sem hafi verið forgangsmál borgarstjórnar undanfarin ár og þar séu fyrstu niðurstöður mjög uppörvandi.

„Við höfum þegar séð jákvæðar vísbendingar í leikskólaumhverfinu um að styttri vinnuvika geti einmitt dregið úr veikindum. Það er staðfest að það dró verulega úr veikindum á fyrsta leikskólanum sem fór í það tilraunaverkefni og við gerum okkur vonir um jákvæðar niðurstöður hjá þeim sjö leikskólum sem hafa bæst við í það verkefni á þessu ári.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert