Vitum ekki hvar verður næst slys

„Það er sérstakur forgangur settur í að aðskilja akstursstefnu og …
„Það er sérstakur forgangur settur í að aðskilja akstursstefnu og tvöfalda Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð á næstu árum,“ segir Sigurður Ingi. mbl.is/Eggert

„Í fyrsta skipti höfum við nægilegt fjármagn til þess að geta sett fram raunverulega áætlun, þó hún sé til fimmtán ára, um að ljúka við aðskilnað akstursstefna á þeim vegum þar sem alvarlegustu slysin verða,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og nefnir þar Suðurlandsveg, Vesturlandsveg og Reykjanesbraut, þar sem banaslys varð í gærmorgun.

Sigurður Ingi segir eðlilegt að þrýstingur á úrbætur aukist í kjölfar slysa sem þessa en segir mikilvægt að horft sé á stóru myndina. „Það er hörmulegt þegar þessi alvarlegu slys verða, en þótt það hafi orðið á Reykjanesbraut í þessu tilviki vitum við ekki á hvaða vegi það verður næst.“

Núverandi samgönguáætlun sé heildstæð og þar sé kveðið á um tvöföldun Reykjanesbrautar og aðskilnað akstursstefnu frá Reykjavík austur að Hellu og norður í Borgarnes. „Það mun skipta mjög miklu.“

„Það er sérstakur forgangur settur í að aðskilja akstursstefnu og tvöfalda Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð á næstu árum,“ segir Sigurður Ingi. Af þessum sökum verði til dæmis aðeins ráðist í aðskilnað akstursstefna frá Hvassahrauni fyrst en breikkun vegarins síðar.

Sigurður Ingi staðfestir að hann hafi sett sig í samband við forsvarsfólk Stopp hingað og ekki lengra! og ætli að hitta það til þess að ræða málin, líklega í næstu viku.

Möguleiki að flýta framkvæmdum með gjaldtöku

Guðbergur Reynisson, einn forsvarsmanna hópsins, fundaði með Birni Viðari Ell­erts­syni, eig­anda jarðvinnu­verk­taka­fyr­ir­tæks­ins Ell­erts Skúla­son­ar, í morg­un þar sem þeir ræddu einkaframtak. Björn Viðar lýsti þar yfir vilja til þess að taka að sér allt verkið en fá endanlega greitt árið 2033, þegar fimmtán ára samgönguáætlun lýkur.

Guðberg­ur sagði ljóst að fram­kvæmd­ir sem þess­ar þyrftu að fara í útboð. „En hann sagðist myndu taka vel í svona verk­efni, svo aðrir hljóta að gera það líka,“ segir Guðbergur. Björn Viðar staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

„Í rík­is­batte­rí­inu er ekki hægt að fram­kvæma vegna skorts á fjár­veit­ing­um en svona er hægt að gera á ann­an hátt,“ seg­ir Björn Viðar, en Ellert Skúlason var meðal þeirra fyrirtækja sem stofnuðu Spöl til þess að gera jarðgöng undir Hvalfjörð á sínum tíma.

Sigurður Ingi segir það til skoðunar hvernig hugsanlegt væri að fá inn aukið fjármagn, og flýta þannig ákveðnum verkefnum á borð við tvöföldun Reykjanesbrautar, með breyttri gjaldtöku fyrir afnot af vegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert