Garðyrkja leggist af með orkupakkanum

Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir borðleggjandi að með innleiðingu …
Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, segir borðleggjandi að með innleiðingu orkupakkans leggist íslensk garðyrkja af í þeirri mynd sem hún er nú. mbl.is/Hari

Formaður Sambands garðyrkjumanna telur ástæðu til að óttast um íslenska matvælaframleiðslu þegar þriðji orkupakki ESB verður innleiddur. Segir hann, í viðtali við Bændablaðið, það borðleggjandi að íslensk garðyrkja leggist af í þeirri mynd sem hún er nú. Afleiðingar verði ekki síður alvarlegar fyrir annan landbúnað, fiskiðnað og ferðaþjónustu.

„Ef Íslendingar ætla ekki að standa vörð um eigið sjálfstæði þá veit ég ekki á hvaða vegferð menn eru í þessum málum. Þetta er skelfileg staða og verst að hugsa til þess að íslenskir stjórnmálamenn virðast ekki skilja um hvað málið snýst og ég efast um að þeir hafi lesið sér til um það,“ segir Gunnar Þorgeirsson, formaður Sambands garðyrkjubænda, í viðtalinu.

„Í dag felst um 30% kostnaðar við rekstur garðyrkjustöðva í kaupum á raforku. Innleiðing á Orkupakka 3 mun án nokkurs vafa leiða til lagningar sæstrengs og hækkunar á raforkuverði. Þá er borðleggjandi að íslensk garðyrkja mun leggjast af í þeirri mynd sem hún er nú. Ef það gerist er ólíklegt að það borgi sig yfir höfuð að framleiða grænmeti yfir vetrartímann á Íslandi.“

Menn séu að berjast í bökkum og það muni ekki lagast hækki kostnaðurinn.

Ljóst sé í hans huga að við innleiðingu orkupakkans verði ekki framleiddir tómatar, gúrkur, jarðarber eða grænmeti sem krefst raflýsingar á Íslandi. Segir Gunnar það undarlega umhverfisstefnu hjá stjórnvöldum að eyðileggja hreinleikaímyndina sem hreina orkan hafi gefið landinu, en sala á hreinleikavottorðum vegna raforku hafi þegar óhreinkað þá mynd. Nú sé 87% orkunnar er sögð framleidd með kolum, olíu, gasi og kjarnorku.

„Við innleiðingu orkupakkans væri hreinleikaímynd landsins algjörlega eyðilögð. Við þurfum þá ekki að gorta okkur af því lengur að Ísland sé hreinasta land í heimi,“ hefur blaðið eftir Gunnari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert