Svari fyrir kúgun hinsegin fólks

Mannréttindasamtök telja sannanir fyrir því að hinsegin fólk í Tsjetsjeníu …
Mannréttindasamtök telja sannanir fyrir því að hinsegin fólk í Tsjetsjeníu verði fyrir stöðugum ofsóknum af hálfu stjórnvalda. AFP

Fulltrúi Íslands í fastaráði Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) mælti í dag fyrir könnun á grófum mannréttindabrotum gagnvart hinsegin fólki í Tsjetsjeníu. Guðni Bragason flutti yfirlýsingu af hálfu sextán aðildarríkja þar sem svara frá rússneskum stjórnvöldum við ásökununum er krafist.

Ennfremur afhenti Guðni rússneska fastafulltrúanum bréf þess efnis, að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Mannréttindasamtök telja sannanir fyrir því að hinsegin fólk í Tsjetsjeníu verði fyrir stöðugum ofsóknum af hálfu stjórnvalda og hafi verið tekið af lífi án dóms og laga, og hafa ásakanirnar oft verið teknar upp í fastaráði ÖSE undanfarin misseri. Skorað hefur verið á stjórnvöld í Rússlandi að stöðva ofbeldið, vernda fórnarlömb og rannsaka ásakanir um ofsóknir.

Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands í ÖSE.
Guðni Bragason, fastafulltrúi Íslands í ÖSE. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Hingað til hafa Rússar veitt ófullnægjandi svör í fastaráðinu og þykir stjórnvöldum í ríkjunum sextán sem tillöguna fluttu að ekki megi lengur við sitja.

Undir bréfið skrifa fastafulltrúar Belgíu, Kanada, Frakklands, Þýskalands, Írlands, Hollands, Bretlands, Bandaríkjanna, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, en fjöldi annarra aðildarríkja styður ferlið gagnvart Rússlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert