Venslatengsl valdi ekki vanhæfi

Ólafur Ólafsson athafnamaður.
Ólafur Ólafsson athafnamaður. mbl.is/Ómar

„Ég verð að viðurkenna að ég á bágt með að skilja niðurstöðu Landsréttar og nú Hæstaréttar um þetta atriði. Mér finnst það afar óheppilegt að nú eigi að fara að dæma í mínu máli, máli sem hefur tengingu við hrunið, og að dómarinn sé faðir blaðamannsins sem hefur haft það sem viðfangsefni um langt árabil að skrifa neikvæðar greinar um mig.“

Þetta segir Ólafur Ólafsson athafnamaður í yfirlýsingu í kjölfar þess að Hæstiréttur staðfesti úrskurð Landsréttar þar sem kröfu Ólafs um að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari viki sæti vegna vanhæfis í áfrýjuðu máli gegn honum var hafnað. Ólafur segir niðurstöðuna staðfesta að Hæstiréttur telji vina- og venslatengsl dómara ekki valda því að hann teljist hlutdrægur gagnvart aðilum máls og efni þess.

Ólafur segist meðal annars hafa gagnrýnt það að sonur Vilhjálms sé Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður sem hafi „á margra ára tímabili kappkostað að skrifa um mig og ávallt undir neikvæðum formerkjum.“ Ólafur segir viðurkennt í úrskurði Landsréttar að í skrifum Inga Freys væri að finna ýmis gildishlaðin ummæli sem bæru vitni um neikvæða afstöðu til hans. Flest skrif Inga Freys hafi verið um viðskipti fyrir bankahrunið.

Hefði getað sagt sig frá málinu

Ólafur bendir á að Ingi Freyr hafi gefið út bók um bankahrunið og að í formála hennar þakki hann Vilhjálmi föður sínum fyrir að hafa þrýst á sig að skrifa bókina. „Fyrir mig, sem utanaðkomandi mann, verður ekki dregin önnur ályktun af því en sú að faðirinn hafi kunnað vel að meta skrif sonarins. Þannig lítur það alla vega út.“ Bendir Ólafur einnig á með vísan í dóma Mannréttindadómstóls Evrópu að við mat á vanhæfi skipti máli hvernig aðstæðurnar horfi við málsaðilanum en ekki huglæg afstaða dómarans.

Ólafur segir enn fremur að sér sé fyrir vikið fyrirmunað að skilja hvers vegna Vilhjálmur hafi ekki sjálfur kosið strax að segja sig frá málinu. „Það eru jú fimmtán skipaðir dómarar við Landsrétt og jafnan þrír sem dæma í hverju máli. Það hefði verið einfaldasti hlutur í heimi að úthluta málinu til annars dómara í staðinn, án þess að í því fælist nokkur áfellisdómur. Þessi vinnubrögð eru ekki til þess fallin að auka traust mitt á dómurunum í máli mínu eða íslensku dómskerfi yfirleitt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert