„Getur verið að við höfum gleymt drengjunum okkar?“

Karl Gauti Hjaltason.
Karl Gauti Hjaltason. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er sama hvar drepið er niður fæti, það er eitthvað að,“ sagði Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Flokks fólksins, í sérstakri umræðu um vanda drengja á Alþingi í dag. Karl Gauti var málshefjandi en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til andsvara. Fjöldi þingmanna tók til máls og virtust flestir sammála um að úrbóta sé þörf, þótt þeir hafi ekki endilega verið samstíga í hvaða málefni væru mikilvægust eða hvaða leiðir eigi að fara.

Karl Gauti hóf mál sitt á að vísa til ljóðs Gríms Thomsen, Á fætur, því þörf væri á því að rísa á fætur til hjálpar drengjum í vanda. Því næst tæpti hann á ýmsum vanda er hann taldi steðja að drengjum á Íslandi í dag.

Meðal þess sem Karl Gauti nefndi er há tíðni sjálfsvíga, geigvænlegur lestrarvandi, að brottfall úr skólum sé meira en hjá stúlkum, nýgengi örorku sé hærra meðal drengja og lyfjanotkun meiri. Þá nefndi hann að hlutfall karlkyns kennara fari sífellt lækkandi og að fáir karlar hafi einir forsjá yfir börnum sínum. Algengast sé að foreldrar hafi sameiginlega forsjá en í þeim tilfellum þar sem bara annað foreldri hafi forsjá sé hlutfallið 1 faðir á móti 58 mæðrum.

Velti hann í kjölfarið fyrir sér ástæðum þess að samfélagið missi unga menn í aðgerðaleysi, örorku, afbrot og jafnvel sjálfsvíg.

„Hvað er að? Skortir þá föðurímynd? Feður eru oft fjarverandi og kennarar langoftast kvenkyns. Foreldrar hafa ekki tíma og börnin eru kannski áhorfendur að lífi foreldranna,“ sagði Karl Gauti.

Hann velti því einnig upp hvort oft og tíðum neikvæð og harkaleg umræða um karlmenn hafi áhrif á sjálfsmynd ungra drengja, hvort drengi vanti hlutverk í lífið, hvort kynvitund drengja sé bjöguð vegna áhrifa klámvæðingarinnar og hvað megi gera til að drengir finni sig betur í skólakerfinu.

Sálfræðiþjónusta mikilvæg

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var til andsvara. Í máli sínu nefndi Katrín að mikilvægt væri að umboðsmaður barna fái aukið hlutverk við að afla gagna um stöðu drengja og stúlkna. Það sé nauðsynlegt til að geta tekið réttar ákvarðanir í málum sem snúa að ungmennum.

Katrín kvaðst deila áhyggjum Karls Gauta vegna fjölda þeirra sem fá lyfjum ávísað. Hún sagði að landlæknisembættið hafi tekið þessi mál til sérstakrar skoðunar. „Við þurfum að huga að kynjavinklinum þar en ekki síður stéttavinklinum. Eru þetta drengir úr krefjandi félagslegum aðstæðum?“ sagði forsætisráðherra.

Þá sagði hún að rannsóknir sýni að karlmenn og drengir leiti frekar eftir aðstoð í heilbrigðiskerfinu með aðstoð tækninnar. Þeir veigri sér við að mæta á staðinn. „Við þurfum að skoða möguleika sem þar eru,“ sagði Katrín sem nefndi jafnframt að tölvunotkun væri ólík milli kynja. Stúlkur væru duglegri við notkun samfélagsmiðla en tölvuleikir væru vinsælli hjá drengjum. Það þyrfti að hafa í huga við mótun stefnu í þessum málum.

Hún vísaði einnig til þess að brottfall úr skólum virðist ekki síst ráðast af félagslegum og sálfræðiaðstæðum. Því sé aðgangur að sálfræðiþjónustu mikilvægur.

„Grípum fyrr inn í“

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, nefndi einn anga vandans sem hann taldi mikilvægan en auðvelt væri að laga. Sá vandi snúi að kerfinu sjálfu og sé ekki bara vandi drengja, þótt þeir séu í miklum meirihluta. „Það er þessi þrýstingur á ungt fólk í skólum, grunn- og framhaldsskólum, fólk sem er enn á barnsaldri í skilningi laganna, að fá greiningu. Því það standa engin úrræði til boða fyrir þau sem eru í vanda, enginn stuðningur, sálfræðiaðstoð fyrr en greiningin, stimplunin, er komin. Fyrr er ekkert gert. Þú ert kvíðinn, ofvirkur og þarft að fá greiningu sem slíkur, pillurnar, svo færðu aðstoðina. Þetta brýtur sjálfsmyndina, að stimplunin skuli vera komin,“ segir Páll sem telur að umrætt fólk sé líklegra til að fara á örorkubætur en aðrir. „Breytum þessu. Grípum fyrr inn í. Gefum því aðgang að sálfræðingum áður en það fær stimplun.“

Sigurður Páll Jónsson, Miðflokknum, lýsti áhyggjum af tíðni sjálfsvíga hjá ungum mönnum. „Það eru allt of margir ungir menn sem sitja í fangelsum landsins. Getur verið að við höfum gleymt drengjunum okkar? Við verðum að skoða hvað veldur brottfalli og tryggja fé í unglingageðdeildir og meðferðir fyrir ungt fólk.“

Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson sagði það rétt sem fram hafði komið að tölvunotkun og tölvuleikir geti verið hluti af skýringunni af hverju ungir drengir villast af leið. Ekki sé hins vegar sama um hvaða tölvuleiki sé að ræða. „Það eru líka til tölvuleikir sem fræða. Ég nefni Kerbal Space Program. Það er hægt að nýta tæknina til að þroska og hjálpa fólki.“

Telur að aga skorti

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði það ekki nýtt að drengir sýni af sér meiri áhættuhegðun en stúlkur. Í gerbreyttum heimi ætti að hans mati að leggja upp úr því að fræða unga menn um jafnréttisumræðu nútímans. Hann vill jafnframt að úrræði verði til staðar til að grípa fyrr inn í gegn vanlíðan barna í skólakerfinu.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, VG, kvaðst fagna umræðu um aukið aðgengi að sálfræðingum. Eins taldi hún máli skipta að skólar bjóði upp á náms- og starfsráðgjöf.

Margrét Tryggvadóttir, Samfylkingu, sagði að pressa væri á ungmennum vegna tilbúinnar gerviveraldar samfélagsmiðla. Hún velti því jafnframt upp hvort sú afreksstefna sem rekin sé í mörgum íþróttagreinum sé til góðs. Talaði Margrét um að ungir drengir ætli sér að verða atvinnumenn í fótbolta en þegar í ljós kemur að það verður ekki, á viðkvæmum aldri, þá sé kannski ekki mikið eftir.

Brynjar Níelsson Sjálfstæðiflokki sagði að nauðsynlegt væri að viðurkenna það að drengir og stúlkur væru ólík frá náttúrunnar hendi, með örfáum undantekningum þó. Hann sagði að lausatök einkenndu umönnun og uppeldi, aga skorti. „Við megum ekki bara tala um réttindi barna, við þurfum að tala um ábyrgð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert