„Sum svör vilja menn bara ekki heyra“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, óskaði í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi eftir skýrum svörum iðnaðarráðherra um hver afstaða hans væri til svonefnds þriðja orkupakka Evrópusambandsins og innleiðingar hans.

Sagði hann kunnan norskan lagaprófessor hafa sagt að með innleiðingu orkupakkans væri Ísland að afsala sér fullveldi að vissu leyti. Þá hefðu íslenskir garðyrkjubændur mótmælt innleiðingu pakkans.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra sagðist hafa hlustað á áhyggjur manna og reynt að svara þeim. „Sum svör vilja menn bara ekki heyra,“ sagði hún og bætti við að talað væri niður til þeirra sem mest vissu um málið.

Efla hagsmunagæslu Íslands

Þá sagði hún að sér fyndist allt í lagi að benda á að Sigmundur Davíð, og flokksfélagi hans og fyrrverandi ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, ættu töluverðan hlut í því að málið væri komið á þann stað sem það er í dag. Ekki hafi verið óskað eftir vissum undanþágum þegar þeir hafi farið með ráðherraembætti.

Þórdís sagði Sigmund ekkert hafa gert í að koma fleiri undanþágum að, en gert var á sínum tíma. „Þegar menn ætla að hafa eitthvað um það að segja, þegar við innleiðum hér tilskipanir og reglugerðir, þá er það einmitt á fyrstu stigum máls.“

Hún sagði þá unnið að því um þessar mundir að efla hagsmunagæslu Íslands við setningu tilskipana á meginlandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert