Andstaðan verið „óþarflega heiftúðug“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli

Forstjóri Landspítalans segir að andstaða við það að uppbygging Landspítalans yrði við Hringbraut en ekki annars staðar hafi verið „óþarflega heiftúðug“ á köflum. Þetta kemur fram í föstudagspistli Páls Matthíassonar á vefsíðu Landspítalans í dag.

„Sem betur fer tókst að virkja öfluga bandamenn innan og utan spítalans, almenning jafnt sem kröftuga einstaklinga úr nær öllum stjórnmálaflokkum, sem skilja kall tímans í þessu mikilvæga verkefni. Uppbyggingin við Hringbraut er komin á fullt skrið og við horfum til betri tíma í þessu tilliti, þó við gerum svo sannarlega ráð fyrir að næstu ár verði annasöm og á stundum torfær á framkvæmdatímanum,“ segir hann ennfremur.

Páll segist ennfremur í pistlinum binda vonir við innleiðingu jafnlaunavottunar til þess „að bæta kjör þeirra stétta sem við árum saman höfum talað um að sitji hjá garði. „Ég bind sömuleiðis vonir við innleiðingu Samskiptasáttmálans. Þar er rakið tækifæri til að gera vinnustaðinn okkar betri og spítalann öruggari fyrir alla. Þessi sáttmáli varð ekki til af sjálfu sér, hann er afrakstur vinnu um 700 starfsmanna sem nú ásamt stjórnendum og öðru starfsfólki innleiða þetta mikilvæga verkefni,“ segir forstjórinn ennfremur í pistli sínum sem lýkur á þessum orðum:

„Þegar ég horfi yfir þessi síðustu ár og skima til þeirra næstu verður það mér æ ljósara að eini fastinn í spítalarekstri er breytileikinn. Þjónusta við sjúklinga tekur sífelldum breytingum, áskoranirnar eru endalausar og stöðug þróun á sér stað á öllum vígstöðvum. Árangur síðustu ára er samstarfi okkar allra að þakka. Verkefni næstu ára eru krefjandi en af reynslu síðustu ára hef ég lært að okkur eru allir vegir færir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert