SÍ hljóti að draga lærdóm af dómnum

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans.
Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans. mbl.is/Hari

Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabankans, segir að Seðlabankinn hljóti að draga lærdóm af dómi Hæstaréttar sem staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur frá því í apríl í fyrra um að felld skyldi úr gildi 15 millj­óna króna stjórn­valds­sekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyr­ir­tækið Sam­herja fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um.

„En ég get ekki sagt neitt um það hver lærdómurinn kann að vera þar sem ekki er búið að ræða þetta á fundi bankaráðs,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. Hlutverk bankaráðs er einkum að hafa eftirlit með starfsemi bankans og telur Gylfi því eðlilegt að bankaráð skoði niðurstöðu dómsins.

Gylfi á eftir að kynna sér dóminn í heild sinni og vill því ekki fullyrða hvort bankaráðið hefði átt að grípa inn í á einhverjum tímapunkti, í ljósi þess að Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að fella eigi úr gildi stjórn­valds­sektina sem Seðlabankinn lagði á Samherja.

„Þar fyrir utan þá er þetta mál sem á sér langan aðdraganda. Það hefði þá verið bankaráð sem sat á þeim tíma, sem ég sat ekki í, sem hefði hugsanlega átt að grípa til einhverra aðgerða,“ segir Gylfi.

Ótímabært að tala um stöðu seðlabankastjóra

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að niðurstaða dómsins sýni að Seðlabankanum hafi mistekist að sinna hlutverki sínu í að tryggja stöðugleika og sýna sanngirni í störfum sínum. Þorsteinn fer fram á að Már Guðmundsson seðlabankastjóri og yfirlögfræðingur bankans segi upp störfum sínum nú þegar og að það sé hlutverk bankaráðs að sjá til að svo verði gert.

„Framferði hans [seðlabankastjóra] gagnvart Samherja og mörgum öðrum er ekkert annað en glæpsamlegt og tel ég stjórnvöldum ekki stætt á að hafa slíkan mann í stóli seðlabankastjóra,“ segir Þorsteinn í samtali við Morgunblaðið í dag.

Gylfi vill ekkert segja um það hvort til greina komi að endurskoða stöðu seðlabankastjóra í ljósi niðurstöðu dómsins en að það sé full ástæða til að fara yfir niðurstöðu hans. Bankaráð kemur næst saman 21. nóvember og gerir Gylfi fastlega ráð fyrir því að farið verði yfir niðurstöðu dómsins á fundinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert