Segir Banksy-verkið „bara plaggat“

Jón segir það byggt á þvaðri að Banksy-verkið sé rosa …
Jón segir það byggt á þvaðri að Banksy-verkið sé rosa mikils virði. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, blæs á allar tilgátur um að Banksy-verk hans sé margra milljóna króna virði og segir það vera ekkert annað en „bara plaggat“. Þetta kemur fram í fésbókarfærslu sem hann birti í dag þar sem hann segir m.a.: „Blaðamaður, eða bara einhver, virðist gefa sér það að þetta verk sé rosa mikils virði. Það er ekki byggt með neinum haldbærum rökum, bara þvaðri.“

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu og leiddi að því líkur að verkið væri „hæglega milljónavirði“ en um er að ræða eftirprentun af verki listamannsins.

„Væri ekkert annað en spilltur bjáni“

Hann segir fjölda fólks hafa haft á málinu skoðun og haft samband við sig vegna þess og segir: „Ef ég bæri heim til mín verðmætt listaverk eftir alþjóðlegan listamann, verk sem ég hefði eignast þegar ég var borgarstjóri, sleppt því að telja það fram til bæði hagsmunaskráningar og skatts, hengt það upp í stofunni hjá mér og sýnt það reglulega á myndum og þar með gleymt að hylma yfir þessu mikla undanskoti og spillingarbragði, þá væri ég ekkert annað en spilltur bjáni. Og þá væri ég líka með eitthvað meira en lítið skerta dómgreind.“ 

Jón gagnrýnir umfjöllun mbl.is um málið og álit Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, lektors í skattarétti við Háskóla Íslands þegar hann segir: „Ég hélt í fyrstu að þetta væru nú bara einhverjir vitleysingar sem væru að pæla í þessu en sá núna að jafnvel menn eins og Pawel Bartoszek eru að snupra mig fyrir þetta og allskonar fólk sem hefur á þessu miklar skoðanir. Mogginn gengur svo langt að draga fram sérfræðing í skattarétti, sem virðist ýja að því að þetta sé jafnvel eitthvað skattalagabrot.“

Þá bætir hann síðar í færslunni við að verkið hafi fyrst og fremst haft tilfinningalegt gildi fyrir sig og spyr hver ætti að meta verðgildi svona verks. „Ef ritstjóri Morgunblaðsins myndi bjóða 10 milljónir í það yrði það þá þar með verðmætið? Eða ætti ég að skrifa Banksy og spyrja hann hvað honum finndist að þetta ætti að kosta?“

Færslu Jóns í heild sinni má lesa hér að neðan:

„Nokkuð hefur verið fjallað um Banksy verkið sem ég á. Blaðamaður vísis hafði samband við mig í fyrradag og ég ræddi lauslega við hann. Seinni partinn í gær hringdi svo í mig blaðamaður á Mogganum. Síminn minn var bilaður og við heyrðum illa í hvor öðrum og ég sagði honum að ég væri bara að undirbúa sýningu í Hörpu um kvöldið, gæti ekki pælt í þessu en honum væri velkomið að tala við mig í dag.

Það hefur enginn hringt í mig en það eru búnar að birtast nokkrar fréttir um þetta og jafnvel einhverjir sem telja að þeir séu hugsanlega að stinga á einhverju spillingarkýli og þetta sé eitthvað rosa dýrt listaverk.

Einhverjar umræður hafa sprottið upp á samfélagsmiðlunum og einkennilegasta fólk stigið fram með skoðanir á þessu máli. Það er verið að spyrja mig á facebook hvort ég ætli að skila verkinu. Ég hélt í fyrstu að þetta væru nú bara einhverjir vitleysingar sem væru að pæla í þessu en sá núna að jafnvel menn eins og Pawel Bartoszek eru að snupra mig fyrir þetta og allskonar fólk sem hefur á þessu miklar skoðanir.

Mogginn gengur svo langt að draga fram sérfræðing í skattarétti, sem virðist ýja að því að þetta sé jafnvel eitthvað skattalagabrot. Blaðamaður, eða bara einhver, virðist gefa sér það að þetta verk sé rosa mikils virði. Það er ekki byggt með neinum haldbærum rökum, bara þvaðri.

Ef ég bæri heim til mín verðmætt listaverk eftir alþjóðlegan listamann, verk sem ég hefði eignast þegar ég var borgarstjóri, sleppt því að telja það fram til bæði hagsmunaskráningar og skatts, hengt það upp í stofunni hjá mér og sýnt það reglulega á myndum og þar með gleymt að hylma yfir þessu mikla undanskoti og spillingarbragði, þá væri ég ekkert annað en spilltur bjáni. Og þá væri ég líka með eitthvað meira en lítið skerta dómgreind.

Hvorki LISTASAFN REYKJAVÍKUR REYKJAVIK ART MUSEUM eða Reykjavíkurborg hefur gert neina kröfu um að fá þetta verk til sín

Þetta er ekki orginal verk eftir Banksy heldur eftirprentun. Hún er ekki einu sinni merkt listamanninum. Þetta er í rauninni bara plaggat. Ég borgaði ekkert fyrir það nema einhvern 50.000 kall fyrir að setja það á álplötu. 

Það er hægt að kaupa svona á netinu fyrir smápeninga.

Ég hef aldrei litið svo á að þetta verk væri virði einhverra peninga. Það hefur einhvers konar táknrænt gildi hugsanlega, jafnvel sögulegt. En fyrst og fremst hefur það tilfinningalegt gildi fyrir mér.

Ef það ætti að meta verðgildi svona verks hver ætti að gera það? Ef ritstjóri Morgunblaðsins myndi bjóða 10 milljónir í það yrði það þá þar með verðmætið? Eða ætti ég að skrifa Banksy og spyrja hann hvað honum finndist að þetta ætti að kosta? Hefur þessi umfjöllun um verkið hugsanlega aukið verðgildi þess og gert það að umdeildu verki? Þetta er bara bull.

Ég get alveg fallist á það að verkið sé sögulega og pólitískt mikilvægt og ætti jafnvel að hanga í Ráðhúsi Reykjavíkur en ég efast um að Banksy myndi leyfa það.

Ég vil taka það fram að ég er enginn listfræðingur. Ég hef ekkert vit á því hvernig listaverk eru metin en þetta er það sem mér finnst og hefur alltaf fundist. Þetta er bara plaggat sem ég fékk kurteysislegt leyfi frá listamanninum sem gerði það bara af því að ég ber svo mikla virðingu fyrir honum. En þetta er samt bara plaggat“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert