Guðni biðst afsökunar á ananas-„hatrinu“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur beðist afsökunar á ummælum sínum þess efnis að það ætti að banna ananas sem álegg á pítsu. Guðni sagði í skólaheimsókn í febrúar í fyrra að hann væri ekki hrifinn af álegginu og að helst vildi hann banna ananas á pítsur.

Ummælin frægu lét Guðni falla á Akureyri þegar hann svaraði spurningu nemanda um pítsur.

„Þarna held ég að áhrif embættisins hafi stigið mér til höfuðs,“ sagði forsetinn í viðtali við útvarpsþátt CBC í Kanada, As It Happens. „Ég gekk skrefi of langt.“

Hawaiian-pítsan svokallaða er geysivinsæl í Kanada en á henni er meðal annars ananas. 

Sam Panopou­los, sem fyrstur manna setti ananas á pítsu, sagðist ein­fald­lega ekki skilja þessa and­stöðu for­set­ans við an­an­as, enda gæfi hann pítsunni ein­stak­linga frísk­andi bragð.

„Þó að ég sé alls ekki hrifinn af því að fá ananas á pítsu skiptir frelsi einstaklingsins meira máli en mitt álit á þeim,“ sagði Guðni. „Ég mæli með sjávarréttapítsu.“

Frétt CBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert