Snorri fær 3,5 milljónir í bætur

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Hjörtur

Hæstiréttur hefur dæmt Akureyrarbæ til að greiða Snorra Óskarssyni 3,5 milljónir króna í skaðabætur vegna uppsagnar hans sem grunnskólakennara við Brekkuskóla. Bæturnar voru þar með lækkaðar um 3 milljónir króna en Héraðsdómur Norðurlands hafði dæmt Akureyrarbæ til að greiða honum 6,5 milljónir króna.

Snorra var sagt upp störfum hjá Akureyrarbæ vegna ummæla um samkynhneigð á bloggsíðu hans. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfðu dæmt uppsögnina ólögmæta.

Snorri Óskarsson.
Snorri Óskarsson. mbl.is/Jóhannes.tv

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að hann hafi fallist á að Snorri eigi rétt á skaðabótum frá Akureyrarbæ. Hins vegar taldi rétturinn að þegar litið yrði til aðdraganda uppsagnar hans yrði hvorki talið að með uppsögninni né í aðdraganda hennar hefðu viðkomandi starfsmenn bæjarins komið fram með þeim hætti að í því hefði falist ólögmæt meingerð gegn Snorra. Akureyrarbær var því sýknaður af kröfu um miskabætur.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að vegna uppsagnarinnar og með tilliti til þess að Snorri fékk greidd laun í fimm mánuði eftir hana voru bætur til hans ákveðnar 3.500.000 krónur með dráttarvöxtum.  

Akureyrarbær skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2017. Hann krafðist aðallega sýknu af kröfum Snorra, en til vara að þær yrðu lækkaðar.

Snorri áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 6. mars 2018. Hann krafðist þess að Akureyrabær skyldi greiða sér annars vegar 13.682.779 krónur með vöxtum og hins vegar 4.000.000 krónur með dráttarvöxtum.

Dómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson skilaði sératkvæði í málinu. Hann sagðist samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um annað en greiðslu miskabóta og ákvörðun málskostnaðar fyrir dómi. Taldi hann rétt að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um miskabætur en í héraðsdómi voru Snorra dæmdar 500 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar sem hafi falist í uppsögninni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert