Segir Einar ekki hafa unnið fyrir VR

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Einar Bárðarson ekki hafa …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir Einar Bárðarson ekki hafa unnið að kynningu opinna funda á vegum félagsins, þvert á orð Einars. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Einar Bárðarson hefur ekki verið að vinna að opnum fundum fyrir VR, upplýsir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í samtali við mbl.is. „Ég hitti hann í kringum þetta mál varðandi Orkuveituna, en hann er ekki að vinna í neinum verkefnum fyrir VR,“ segir hann.

Einar, maki Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sagði í tölvupósti um uppsögn eiginkonu sinnar til Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitunnar, og Sólrúnar Kristjánsdóttur, starfsmannastjóra fyrirtækisins, þann ellefta september að Ragnar Þór hefði beðið sig um að „taka að sér að halda utan um og kynna nokkra opna fundi sem hon­um lang­ar að VR standi fyr­ir núna í haust.“

Var krafist þess í tölvupóstinum að Orkuveitan myndi greiða Áslaugu laun til tveggja ára gegn því að fleirum yrði ekki blandað í málið. Hafði Einar gefið í skyn að hann hygðist halda fund um #meetoo byltinguna á vegum VR þar sem eiginkona hans myndi segja reynslu sína af stjórnendum fyrirtækisins.

„Við ræddum saman og menn koma með hugmyndir til okkar á hverjum degi, jafnvel oft á dag um hitt og þetta. Við erum að ræða allskonar hluti, en það hefur ekkert verið ákveðið eða rætt um þetta innan okkar raða,“ segir Ragnar Þór spurður um orð Einars. „Hann er ekki í neinni fundarherferð sem hann er að vinna fyrir okkur,“ bætir formaður VR við.

Ragnar Þór segist að öðru leyti ekki getað tjáð sig um málið þar sem hann hafi ekki séð umræddan tölvupóst.

Ekki tókst að ná sambandi við Einar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert