Fjárlög til þriðju umræðu

Engin andmæli voru við að fjárlagafrumvarpinu yrði vísað til þriðju …
Engin andmæli voru við að fjárlagafrumvarpinu yrði vísað til þriðju og síðustu umræðu í þinginu. Hún hefst á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samþykktar voru allar breytingartillögur meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið og fer frumvarpið til þriðju umræðu, en hún hefst á morgun.

Nokkuð hefur verið deilt um fjárlagafrumvarpið að undanförnu og breytingartillögur meirihlutans. En þær hlutu samþykkt.

Þá hefur til að mynda miðstjórn Alþýðusam­bands Íslands sak­að meiri­hluta fjár­langa­nefnd­ar Alþing­is um að reka „óá­byrga rík­is­fjár­mála­stefnu,“ og Drífa Snædal, forseti ASÍ, fullyrt að nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar sýni að stjórnvöld hafi lítinn skilning á þeim verkefnum sem bíða og hiki ekki við að svíkja gefin loforð.

„Við erum að reyna að laga vond fjár­lög og við erum að verja þá hópa sem veik­ast standa fyr­ir vond­um fjár­lög­um,“ sagði Logi Már Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, við mbl.is í kjölfar blaðamannafundar flokksins í Iðnó í síðustu viku.

Þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sögðu að aðhaldsaðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar við breyt­ing­ar á fjár­lög­um tryggi hvorki fé­lags­leg­an né efna­hags­leg­an stöðug­leika og van­ræki fé­lags­lega innviði.

Því hefur verið haldið fram að hagræðingaraðgerð valdi því að meirihluti fjárlaganefndar hafi ákveðið að leggja til minni hækkun framlags til öryrkja.

Formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur hins vegar sagt slíkt af og frá. Þá hefur hann sagt breytingarnar byggja á að beðið sé eftir innleiðingu kerfisbreytinga í bótakerfi öryrkja.

Einnig hefur frumvarpið verið gagnrýnt fyrir að stuðla að of mikilli aukningu útgjalda af þingmönnum Miðflokksins og Viðreisnar.

Jafnframt hefur framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Sigurður Hannesson, lýst vonbrigðum vegna lítillar lækkunar tryggingagjalds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert