Talin hafa stungið tengdason sinn

Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Vesturlands yfir konu á áttræðisaldri sem sökuð er um tilraun til manndráps með því að hafa stungið tengdason sinn með hnífi 10. nóvember, en meint brot varðar allt að ævilöngu fangelsi.

Konan verður í gæsluvarðhaldi til 16. desember en hún hefur verið í haldi lögreglu frá því málið kom upp. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að konan hefði gengist við því aðspurð þegar lögreglan kom á vettvang að hafa stungið tengdason sinn.

Þar segir enn fremur að konan hafi verið mjög ölvuð og hafi tengdasonurinn gert athugasemd við að hún væri að sinna barnabarni sínu í því ástandi. Hafi faðir barnsins óskað eftir aðstoð lögreglu af þeim sökum fyrr um kvöldið en barnið hafi þá hringt í föður sinn og kvartað yfir ölvun ömmu sinnar. Lögreglumenn komu á vettvang en virtist konan vera í lagi þótt þeir hafi tekið eftir ölvunarástandi hennar og hún viðurkennt að hafa neytt áfengis.

Eftir að barnið var sofnað segist tengdasonurinn hafa sofnað en vaknað við að konan hefði komið inn í herbergið og sakað hann um að hafa kallað lögregluna á vettvang. Hann hafi ætlað að koma henni út úr herberginu en þá fundið fyrir stungu og honum farið að blæða. Hann reyndi þá að hringja í sambýliskonu sína en fann ekki farsíma sinn.

Talin hafa reynt að fjarlægja sönnunargögn

Tengdasonurinn vill meina að kona hafi fjarlægt farsíma hans og spjaldtölvu og falið á meðan hann svaf. Hann hafi síðan hringt úr heimasíma í sambýliskonu sína en á meðan hafi konan öskrað á hann að þetta væri allt honum að kenna og ógnað honum með hnífi. Sambýliskona hans hefði síðan hringt í móður sína en hann lokað sig inni í herbergi.

Tengdasonurinn talaði síðan aftur við sambýliskonu sína sem hafi látið hringja eftir aðstoð lögreglu en honum hafði blætt mjög í kjölfar árásarinnar. Sambýliskonan hefur staðfest frásögn mannsins. Konan hefur neitað sök en frásögn hennar þykir óljós og ófullkomin og stangast verulega á við annað sem komið hafi fram við rannsókn málsins. 

Konan er enn fremur grunuð um að hafa verið farin að hreinsa vettvanginn af sönnunargögnum og um að reyna að koma í veg fyrir að maðurinn kæmist á brott. Þannig hafi verið búið að stinga á hjólbarða bifreiðar hans og hnífur og blóðug föt hafi fundist í bifreið fyrir utan húsið. Maðurinn er ekki í lífshættu en árásin var hættuleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert