Fríverslun við Indónesíu í höfn

Guðlaugur Þór tekur í hönd viðskiptaráðherra Indónesíu, Enggartiasto Lukita.
Guðlaugur Þór tekur í hönd viðskiptaráðherra Indónesíu, Enggartiasto Lukita. Ljósmynd/EFTA

„Þetta er án nokkurs vafa það stærsta sem kemur út úr þessum fundi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands í samtali við mbl.is. Á fundi EFTA-ríkjanna í Genf í Sviss í dag var yfirlýsing um lok fríverslunarviðræðna EFTA og Indónesíu undirrituð.

Viðræðurnar hafa staðið yfir nær óslitið frá 2010, en Guðlaugur Þór segir fríverslunarviðræður alla jafna taka mjög langan tíma, en að ljóst sé að þarna njóti Ísland góðs af því að vera í EFTA.

„Indónesía er fjórða fjölmennasta land heims, með yfir 260 milljónir íbúa, og sextánda stærsta hagkerfi heims. Þá liggur fyrir að hagkerfið muni stækka mikið á næstu árum og áratugum,“ segir Guðlaugur Þór og að ljóst sé að fríverslunarsamningur Íslands og Indónesíu opni fjölmörg tækifæri.

Ráðherrar EFTA-ríkjanna.
Ráðherrar EFTA-ríkjanna. Ljósmynd/EFTA

Hann segir viðskipti á milli Íslands og Indónesíu ekki hafa verið umfangsmikil hingað til, en þangað hafi þó verið fluttar sjávarafurðir á borð við makríl, loðnu og þorsk. Þá hafi íslensk fyrirtæki unnið að jarðvarmaverkefnum í Indónesíu. „Þetta land hefur mikla möguleika þegar kemur að jarðvarma og sjávarútvegi.“

Fríverslunarsamningur EFTA og Indónesíu verður undirritaður 16. desember.

„Samningurinn eflir fríverslunarnet okkar enn frekar, og vonandi náum við frekari árangri á næstunni. Á fundinum skrifuðum við sömuleiðis undi samstarfsyfirlýsingu við Kósóvó.“

Auka vægi jafnréttis í fríverslunarsamningum

Meðal annarra umfjöllunarefna á fundinum voru áherslur um að koma jafnréttismálum inn í fríverslunarsamninga, en Ísland hafði að því frumkvæði að áhersla yrði lögð á jöfn tækifæri karla og kvenna við gerð slíkra samninga. „Það þokast áleiðis og verður áhersla á jafnréttismál eins og mannréttindamál og sjálfbærni í fríverslunarsamninginn.“

Nánar er hægt að lesa um það sem fram fór á fundi ráðherra EFTA á vef Stjórnarráðsins, en einhugur var á fundinum um að halda áfram fríverslunarviðræðum við Indland, Víetnam, Malasíu og Mercosur-ríkin. Þá ræddu ráðherrarnir um hugsanlega uppfærslu á gildandi fríverslunarsamningum EFTA við Kanada, Chile og Mexíkó og möguleika á að hefja fríverslunarviðræður við Pakistan og Moldóvu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert