HR krafinn um 66 mánaða laun

Kristinn Sigurjónsson krefst tæplega 57 milljóna króna í stefnu á …
Kristinn Sigurjónsson krefst tæplega 57 milljóna króna í stefnu á hendur Háskólans í Reykjavík vegna ólögmætrar uppsagnar. mbl.is/Árni Sæberg

Kristinn Sigurjónsson, fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík, fer fram á greiðslu tæplega 57 milljóna króna vegna ólögmætrar uppsagnar í kjölfar ummæla sem hann lét falla innan lokaðs Facebook-hóps. Þetta kemur fram í stefnu á Kristins á hendur háskólanum.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður Kristins, staðfestir þetta við mbl.is og segir fyrirtöku málsins líklega verða 4. desember, þá segir hann enga ástæðu til þess að ætla annað en að Héraðsdómur Reykjavíkur taki málið fyrir um miðjan janúar.

Meðal þess sem Kristinn sagði innan Facebook-hópsins var að kon­ur troði sér inn á vinnustaði þar sem karl­menn vinna. Þá sagði hann að kon­ur eyðilegðu vinnustaðina því karl­menn eigi að „tala, hugsa og hegða sér eins og kerl­ing­ar, allt annað er áreiti“.

Rötuðu ummælin á vef DV þriðja október og var Kristinn boðaður á fund mannauðsstjóra fjórða október. Var hann upplýstur um að honum væri ekki stætt að starfa lengur við skólann og var honum gefinn kostur á að velja milli fyrirvaralausrar uppsagnar og starfslokasamnings, að því er kemur fram í stefnunni.

Laun í 66 mánuði

Kröfur Kristins um 56.863.000 krónur, sem Vísir sagði fyrst frá, byggja meðal annars á að uppsögn hans hafi ekki samræmst þeirri réttarstöðu sem hann telur sig njóta samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Hafði hann áður starfað við Tækniskólann og þegar sá skóli sameinaðist HR var Kristinn upplýstur um að hinn nýi skóli myndi „virða áfram launakjör og starfsskilyrði með sömu skilmálum og áður giltu“, að því er fram kemur í stefnunni.

Þá er krafist að Kristni verði greidd óskert laun fram að 70 ára aldri, eða í 66 mánuði. Heildarupphæð kröfu hans vegna launataps vegna ólögmætrar uppsagnar er því 50.820.000 krónur. Við bætast 1.043.000 krónur vegna kjarasamningsbundinna fríðinda eins og desemberuppbótar.

Miskabætur

Kristinn krefst einnig greiðslu fimm milljóna króna í miskabætur meðal annars vegna ummæla sem stjórnendur skólans létu falla í fjölmiðlum í sambandi við umfjöllun fjölmiðla um málið.

Þá segir frá yfirlýsingu skólans frá 12. október þar sem segir að „eðlilegt er þó að taka fram að orðræða sem hvetur til mismununar eða haturs á grundvelli kyns, kynhneigðar, fötlunar eða kynþáttar er ekki liðin innan háskólans“.

Samkvæmt stefnunni „voru sýnilega á ferðinni hreinar dylgjur um að stefnandi hvetti til mismununar eða haturs á grundvelli kyns, því tilefni þessarar yfirlýsingar var mál stefnanda. Var yfirlýsingunni sýnilega ætlað að skýra ástæðurnar fyrir brottvikningu hans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert