Sérfræðingahópurinn greiðir leið lausna

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

„Samtök atvinnulífsins hafa lagt gríðarlega vinnu í að greina vandann og hugsa upp lausnir. Verkalýðshreyfingin hefur gert slíkt hið sama. Það sem stofnun hóps af þessu tagi gerir er að þetta veitir þessu forgang í stjórnkerfinu.“ Þetta segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við mbl.is, spurður um hvaða áhrif nýr sérfræðingahópur vegna húsnæðisvanda geti haft í för með sér.

Í kvöldfréttum Rúv var sagt frá því að forsætisráðherra hefði ákveðið að stofna hóp sérfræðinga sem verði falið að koma með lausnir á húsnæðisvandanum og liðka þannig fyrir gerð kjarasamninga. Samkvæmt heimildum mbl.is var tilkynnt um þessa ákvörðun forsætisráðherra á fundi með aðilum vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í gær, og er frekari upplýsinga um starfsemi hópsins að vænta í næstu viku.

„Það liggur í augum uppi að það setur aukinn þunga á málið að forsætisráðherra skuli beita sér fyrir þessu og mun greiða leið fyrir þeim lausnum sem koma frá Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni í þessum efnum,“ segir Halldór. 

Lausnin að byggja meira

„Það jákvæða er að allir aðilar eru búnir að átta sig á því að lausn framboðsskorts á fasteignamarkaði er fólgin í því að byggja meira. Það er jákvætt skref að aðilar vinnumarkaðarins, bæði verkalýðsfélögin, Samtök atvinnulífsins og ríkið séu komin á þá stefnu.“

Halldór segir að það hafi gengið mjög vel á Íslandi á undanförnum árum og bætir við: „En það eru til hópar sem standa utan meðaltalsins, t.d. varðandi kaupmáttarþróun, fyrst og fremst vegna skorts á fasteignamarkaði, sem búa við ótryggt húsnæði og greiða háa leigu og/eða annan húsnæðiskostnað. Ég hygg að aðilar vinnumarkaðarins séu búnir að koma sér saman um það núna að leiðin til þess að létta undir þessum einstaklingum sé að byggja meira og lækka þannig fasteignaverð og/eða leiguverð. Ég hygg að það sé rótin að komandi kjarasamningsviðræðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert