„Alvarlegur leki“ úr forsætisnefnd

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kannast ekki við að forsætisnefnd hafi rætt það á fundi sínum að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, yrði mögulega látinn sæta ábyrgð samkvæmt siðareglum fyrir að hafa sent erindi til nefndarinnar um akstursgreiðslur til þingmanna.

„Ég kannast ekki við hótun af einu eða neinu tagi. Það er afbökun á því sem þarna fór fram,“ segir Steingrímur, sem vill annars ekki ræða þetta mál frekar þar sem umræða í viðkvæmum málum í forsætisnefnd sé trúnaðarmál. Fundargerðir forsætisnefndar eru trúnaðarmál. Við virðumst búa í þessu tilviki við mjög alvarlegan leka út úr forsætisnefnd,“ segir hann og kveðst harma það.

Fram kom í tilkynningu frá Pírötum á mánudag að óheimilt sé samkvæmt siðareglum að láta Björn Leví sæta ábyrgð í málinu. Rökstutt erindi um brot á reglunum megi aldrei bitna á sendanda þess. „Þessi hótun getur haft alvarleg fælingaráhrif og takmarkað verulega áhrifamátt siðareglnanna,“ segir í tilkynningunni.

Niðurstaðan ítarlega rökstudd

Björn Leví greindi frá því í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að hann ætli sér ekki að láta staðar numið vegna máls Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en forsætisnefnd gaf þau svör við fyrirspurn hans að hátterni Ásmundar hafi ekki verið andstæð siðareglum alþingismanna. Hún taldi heldur ekki tilefni til að hefja almenna rannsókn á endurgreiddum aksturskostnaði þingmanna.

Aðspurður segir Steingrímur að niðurstaðan tali fyrir sig sjálf. Allt sé ítarlega rökstutt eins og sjá megi af niðurstöðunni og gögnunum sem fylgi henni. „Það var lögð í þetta umtalsverð vinna í annað sinn. Það fór fram viðbótarskoðun af hálfu skrifstofunnar eins og kemur fram í hennar svari og niðurstaðan er tiltölulega hrein. Við fundum ekkert í þessu máli sem gaf tilefni til þess að fara með það lengra.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Styttist í upplýsingar aftur í tímann 

Hann bendir á að ýmislegt hafi verið gert undanfarið varðandi upplýsingar um kostnað þingmanna. „Við höfum verið að styrkja þessa framkvæmd og betrumbæta og fyrst og fremst stóraukið gagnsæið með þessari birtingu,“ segir hann og á við birtingu upplýsinga um kostnað þingmanna á vef Alþingis.

Steingrímur bætir því við að það styttist í að efnd verði heit um að birta upplýsingarnar aftur í tímann. Það verði gert í síðasta lagi í fyrri hluta desember. Hann segir vinnuna hafa verið miklu meiri en búist var við og það verði útskýrt þegar nær dregur. Ástæðurnar hafi verið tæknilegs- og bókhaldslegs eðlis og einnig vegna persónuverndarsjónarmiða.

Misskilningur varðandi siðanefnd

Einnig segir hann að hugsanlega mætti hafa reglurnar um aksturskostnað skýrari varðandi aðskilnað erinda. Það breyti þó engu um niðurstöðu málsins aftur á bak. Hann nefnir að misskilningur hafi verið uppi varðandi forsætisnefnd og siðanefnd og menn talað eins og forsætisnefnd hafi lítið með siðareglurnar að gera og hún sé bara ráðgefandi nefnd. Hvetur hann fólk í því samhengi til að lesa siðareglurnar og verklagsreglurnar sem fylgja þeim. Þar komi mjög skýrt fram að í þeim tilvikum sem forsætisnefnd metur nógu alvarleg skýtur hún þeim til siðanefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert