5G farnetin í burðarliðnum hér á landi

Þétta þarf sendinetið fyrir uppbyggingu 5G farneta og er talið …
Þétta þarf sendinetið fyrir uppbyggingu 5G farneta og er talið ákjósanlegt að setja senda á ljósastaura með stuttu millibili. mbl.is/Golli

Innleiðing fimmtu kynslóðar farneta, 5G tenginga fyrir fjarskipti í farsímakerfinu, er í burðarliðnum hér á landi en talið er að sú þráðlausa tækninýjung muni hafa byltingarkennd áhrif í samfélaginu.

„Tæknin er að verða stöðluð og fyrirtækin eru farin að smíða búnaðinn inn á 5G,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS).

5G tæknin mun marka stórt skref fram á við í þróuninni á fjarskiptamarkaði og býður upp á nettengingar hluta, tækja og tóla. ,,Það er sagt að 5G sé net Internets hlutanna og þar erum við sem samfélag að fara inn á nýjar brautir,“ segir Hrafnkell. Setja þarf upp þéttara sendanet og fyrir mun hærri tíðnisvið en notuð eru í dag eða upp í allt að 26 gígarið. „Vegalengdin sem sendirinn dregur er mældur í tugum eða örfáum hundruðum metra. Það þarf að þétta sendinetið og kannski verða sendarnir settir á ljósastaura,“ segir Hrafnkell.

Í umfjöllun um tæknivæðingu þessa í Morgunblaðinu í dag segir hann íslensk fjarskiptafyrirtæki þegar farin að innleiða svonefnda Narrowband-IoT-tækni sem býr í haginn fyrir innleiðingu 5G. Þróun 5G tækninnar sé því í raun og veru þegar farin að síast inn í fjarskiptakerfið. „Ég tel að fjarskiptafélögin séu með nægjanlegar tíðniheimildir þannig að þau geta farið af stað með þær prófanir sem þau vilja ráðast í og það mun ekki standa á okkur að útvega tilraunaleyfi og annað sem þarf til að fara út í prófanir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert