Eliza Reid opnar mannréttindaherferð

Frá ljósainnsetningunni við Hallgrímskirkju á síðasta ári.
Frá ljósainnsetningunni við Hallgrímskirkju á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mannréttindasamtökin Amnesty International ýta á morgun aftur úr vör stærstu mannréttindaherferð í heimi sem kallast Bréf til bjargar lífi. Herferðin í ár beinir sjónum sínum að hugrökkum konum sem hafa verið áreittar, fangelsaðar, pyndaðar og jafnvel myrtar vegna starfa sinna í þágu mannréttinda.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Eliza Reid forsetafrú opnar herferðina á morgun kl. 17 með gagnvirku ljósainnsetningunni Lýsum upp myrkrið. Ljósainnsetningin í ár fer fram fyrir framan Hallgrímskirkju frá 30. nóvember til 2. desember frá kl. 17 til 22. Markmið viðburðarins er að skapa víðtæka vitundarvakningu meðal almennings á Íslandi um hvernig megi tendra ljós gegn myrkrinu sem mannréttindabrot eru og dreifa boðskapnum.

„Gestir geta lýst upp myrkrið sem mannréttindabrotin eru og tekið þátt í ljósainnsetningunni með því að skrifa undir málin á spjaldtölvu fyrir framan kirkjuna. Á framhlið kirkjunnar verður varpað 70 metra háu kerti og margvíslegu töfrandi sjónarspili og saman geta þátttakendur lagt sitt af mörkum til að halda loga kertisins lifandi auk þess sem undirskrift þeirra verður hluti af innsetningunni,“ segir í fréttatilkynningunni.

Þeir sem taka þátt í Bréfi til bjargar lífi 2018 munu taka stöðu með baráttukonum fyrir mannréttindum frá Brasilíu, Egyptalandi, Indlandi, Íran, Kenýa, Kirgistan, Marokkó, Suður-Afríku, Úkraníu og Venesúela.

Meðal mála sem barist er fyrir í ár eru beiðni um réttlæti fyrir Marielle Franco, brasilískan mannréttindafrömuð, sem var skotin til bana í bíl sínum fyrir átta mánuðum; Atenu Daemi, íranska baráttukonu sem situr nú í sjö ára fangelsi fyrir að mótmæla dauðarefsingunni og Nonhle Mbuthuma, frá Suður-Afríku, sem hótað hefur verið lífláti vegna andófs gegn námufyrirtæki sem vill vinna títaníum á landi forfeðra hennar.

Hægt er að skrifa undir öll málin á https://amnesty.is/.

Fjöldi fólks mætti á viðburðinn á síðasta ári.
Fjöldi fólks mætti á viðburðinn á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Heiðra hlutverk kvenna

„Um heim allan eru konur í fararbroddi andófsfólks. Við viljum heiðra hlutverk kvenna sem rísa upp gegn valdinu, leggja sitt af mörkum í þágu réttlætisins og eru í forystuhlutverki í baráttu fyrir breytingum,“ er haft eftir Kumi Naidoo, aðalframkvæmdastjóra Amnesty International, í tilkynningunni.

„Staða þeirra sem leiðtoga í samfélögum sínum er enn merkilegri í ljósi þeirra áskorana sem eru á vegi þeirra. Alþjóðleg undirskriftaherferð Amnesty International, Bréf til bjargar lífi, er í ár helguð konum sem berjast gegn óréttlátum lögum, spillingu, lögregluofbeldi og mörgu öðru. Þær eru leiðtogar og við þurfum á fleira fólki eins og þeim að halda, nú þegar heimurinn færist sífellt í átt til öfga. Með því að slást í hópinn með þessum konum getur þú lagt lóð á vogarskálirnar í þágu jafnréttis, frelsis og réttlætis,“ segir þar enn fremur.

Amnesty International hvetur alla til að sýna fólki, hópum og samfélögum sem um heim allan leita réttlætis stuðning. Í ár munu þeir sem taka þátt með Amnesty International styðja:

Marielle Franco, Brasilía
Marielle Franco var óttalaus í baráttu sinni fyrir réttlátari og öruggari Rio de Janeiro. Hún barðist fyrir réttindum ungs fólks, blökkukvenna og hinsegin fólks. Hún gagnrýndi líka ólögmæt dráp lögreglu. Það var þaggað niður í henni þegar hún var skotin til bana í bíl sínum. Hún er ein af a.m.k. 70 mannréttindafrömuðum sem myrtir voru í Brasilíu 2017.

Amal Fathy, Egyptaland

Þann 9. maí síðastliðinn birti Amal Fathy myndband á Facebook þar sem hún deildi reynslu sinni af kynferðislegri áreitni, vakti athygli á umfangi vandans í Egyptalandi og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að vernda ekki konur. Hún var handtekin í kjölfarið.

Pavitri Manjhi, Indland
Pavitri Manjhi tilheyrir samfélagi frumbyggja sem á það á hættu að verða rekið af landi sínu til að rýma til fyrir tveimur orkuverum. Pavitri stofnaði samtök sem lögðu fram næstum 100 kvartanir. Nú verður hún fyrir hótunum.

Sengwer-fólkið, Kenía

Sengwer-fólkið hefur aldagömul tengsl við Embobut-skóg Skógarverðir hafa kveikt í heimilum og neytt þúsundir af landi forfeðra þeirra. Einn karlmaður hefur verið skotinn til bana og annar særðist alvarlega. Sengwer-fólkið er staðráðið í að verjast ofsóknunum.

Atena Daemi, Íran

Atena Daemi hefur verið ötul í baráttunni gegn dauðarefsingunni í Íran. Hún skrifaði stöðufærslur á samfélagsmiðlum, dreifði bæklingum og tók þátt í friðsamlegum mótmælum. Hún var dæmd í sjö ára fangelsi. Réttarhöldin tóku bara fimmtán mínútur og hún hefur sætt ofbeldi og niðurlægjandi meðferð í fangelsi.

Gulzar Duishenova, Kirgistan

Gulzar Duishenova er baráttukona. Drifkraftur hennar er að tryggja að fólk með fötlun fái að lifa lífinu með reisn. Hún verður daglega fyrir mismunun í samfélagi þar sem konur eiga ekki að hafa hátt og litið er á fólk með fötlun sem „ónytjunga“.

Nawal Benaissa, Marokkó

Nawal Benaissa berst fyrir bættum mannréttindum í Marokkó, þar sem margir íbúar upplifa afskiptaleysi af hálfu stjórnvalda. Hún hefur sætt árásum af hálfu stjórnvalda og hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir að „hvetja til lögbrota“.

Nonhle Mbuthuma, Suður-Afríka

Nonhle Mbuthuma leiðir baráttu fyrir samfélag sitt gegn námufyrirtæki sem vill vinna títaníum á landi forfeðra hennar. Hún er áreitt, henni hótað og hefur lifað af morðtilræði. Reynt er að þagga niður í henni en hún hættir ekki baráttu sinni: „Ef land mitt er tekið er sjálfsmynd mín tekin frá mér.“

Vitalina Koval, Úkraína

Vitalina Koval leggur á sig mikla vinnu til að styðja við bakið á hinsegin fólki í heimabæ sínum í Úkraínu. Hún varð hins vegar fyrir hrottafenginni árás í kjölfar þátttöku sinnar í skipulagningu friðsamlegrar kröfugöngu. Vitalina neitar að láta hótanir og ofbeldi þagga niður í sér.

Geraldine Chacón, Venesúela

Geraldine Chacón aðstoðar við valdeflingu ungs fólks í heimabyggð sinni og hvetur það til að verja réttindi sín. Hún er hins vegar hundelt af yfirvöldum fyrir það eitt að reyna að bæta lífið í landi sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert