Fer yfir 50 metra í hviðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Suðausturlandi og verður fram á miðjan dag en annars staðar á landinu er gul viðvörun í gildi og verður áfram. Að sögn veðurfræðings hefur verið mjög hvasst á sumum stöðum og slegið í ofsaveður í vindstrengjum við fjöll á sunnan- og vestanverðu landinu.

Þjóðvegur 1 er lokaður á Suðausturlandi frá Gígjukvísl að Jökulsárlóni. Þá er vegurinn um Kjalarnes einnig lokaður sem og Fjarðarheiði. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Hvolsvelli austur í Vík.

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að rokið sé einna minnst á Norðausturlandi en þar snjóar mjög mikið. Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Norðausturlandi var nóttin róleg þar. Aftur á móti kafsnjóar á Akureyri og víðar og víða ekki fært nema á vel útbúnum bifreiðum.

Að sögn Daníels fór í 58 metra á sekúndu við Sandfell í Öræfum í gærkvöldi. Á nokkrum mælistöðvum á láglendi hefur verið fárviðri, það er yfir 33 metrar á sekúndu. Það eru Kjalarnes en þar voru 34 metrar á sekúndu í nótt. Á sjálfvirkum mæli Vegagerðarinnar sést að í hviðum um sex leytið fór vindhraðinn í 51 stig þar.  Á Bláfeldi á Snæfellsnesi og á Blönduósi voru 33 metrar á sekúndu. Mun meiri vindstyrkur hefur síðan mælst í hviðum.

Við Hraunsmúla í Staðarsveit fór vindhraðinn í 57 metra á sekúndu í hviðum á sjötta tímanum í morgun, samkvæmt mælum Vegagerðarinnar og um tíma í nótt fór í 43 metra á sekúndu í hviðum á Blönduósi.

Hann segir að með morgninum dragi hægt og rólega úr veðrinu en áfram verður hvassviðri og stormur á Norðvesturlandi og Suðausturlandi fram á föstudag. 

„Norðaustan óveðrið er nú í hámarki og verður fram eftir morgni en með deginum dregur hægt úr vindi. Víða hvassviðri eða stormur en staðbundið mun hvassara í vindstrengjum við fjöll. Fljótt á litið virðist að sterkasta hviðan hafi mælst í gærkvöldi við Sandfell í Öræfum, 58 m/s, en í nótt náði 10 mínútna meðalvindhraði tæpum 34 m/s á Kjalarnesi, við Bláfeld og á Vegagerðarstöð við Blönduós. Það snjóaði um norðanvert landið og má því búast við snjóþekju eða ófærð á heiðum þar í dag og áfram er útlit fyrir ofankomu norðan til á landinu á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáð er norðaustanstormi eða -roki og jafnvel staðbundnu ofsaveðri í vindstrengjum við fjöll sunnan- og vestanlands og snjókomu eða hríðarveðri á heiðum norðan- og austanlands fram í dag og á morgun en smám saman dregur úr vindi í dag.

Samgöngur milli landshluta geta farið úr skorðum og fólk er hvatt til að tryggja lausamuni til að fyrirbyggja foktjón og fylgjast með veðurspám og viðvörunum, segir í viðvörun Veðurstofu Íslands.

Á Suðausturlandi er norðaustan 23-30 m/s og vindhviður um 45-55 m/s við fjöll frá Lómagnúpi til austurs í Lón. Aðstæður til ferðalaga eru hættulegar og líkur á grjót og sandfoki, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Í dag

Norðaustanhvassviðri eða -stormur, en sums staðar staðbundið rok eða ofsaveður í vindstrengjum við fjöll um landið sunnan- og vestanvert. Snjókoma norðan til á landinu en rigning á láglendi austanlands, annars úrkomulítið. Dregur smám saman úr vindi með deginum. Hiti kringum frostmark.
Norðan 10-18 m/s á morgun en 15-23 m/s norðvestan til á landinu og með suðausturströndinni. Áfram snjókoma eða él um norðanvert landið en þurrt syðra. Kólnar heldur á morgun.

Á föstudag:

Norðan 15-23 m/s norðvestan til á landinu og með suðausturströndinni, annars 10-18 m/s. Snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en yfirleitt þurrt sunnanlands. Dregur smám saman úr vindi þegar líður á kvöldið. Frost víða 1 til 6 stig. 

Á laugardag:
Norðlæg átt 8-15 m/s, en heldur hvassari norðaustast. Snjókoma eða él um norðanvert landið en léttskýjað sunnan til. Frost 2 til 8 stig. 

Á sunnudag:
Norðan 5-13 og él norðan til á landinu en bjartviðri syðra. Frost 3 til 13 stig, kaldast á Vestfjörðum. 

Á mánudag og þriðjudag:
Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-8 ms. Bjartviðri norðaustan- og austanlands en stöku él sunnan- og vestan til á landinu. Kalt í veðri. 

Á miðvikudag:
Útliti fyrir hæga suðlæga eða breytilega átt og él með vestur- og norðurströndinni, annars þurrt. Hægt hlýnandi veður.

Færð og aðstæður

Suðurland: Víðast hvar greiðfært en sums staðar hálkublettir í innsveitum. Hvasst er allvíða.

Þjóðvegur 1 er lokaður frá Hvolsvelli austur í Vík.

Suðvesturland: Það er víðast hvar greiðfært en þó eru hálkublettir á fáeinum útvegum. Lokað er á Kjalarnesi.

Vesturland: Hálka er á Holtavörðuheiði en einnig eru hálkublettir mjög víða og hvasst á Snæfellsnesi.  

Vestfirðir: Hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði hefur báðum verið lokað vegna veðurs. Allhvasst er víða.

Norðurland: Hálka er á velflestum vegum. Éljagangur við Eyjafjörð og hvasst er allvíða. 

Norðausturland: Víðast hvar er hálka, jafnvel flughálka, en sums staðar snjóar með ströndinni og þar er snjóþekja.

Austurland: Víða hálka á fjallvegum og til landsins en hálkublettir eða autt með ströndinni. Þæfingsfærð er á Breiðdalsheiði en þungfært á Mjóafjarðarheiði. Búið er að loka Fjarðarheiði og Öxi. 

Suðausturland: Vegir eru auðir en sums staðar nokkuð hvasst og byljótt. Þjóðvegur 1 er lokaður frá Gígjukvísl í Jökulsárlón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert