Forsætisnefnd fjallar um Klaustursmálið

„Ég er búinn að fá tölvupóst með þessari beiðni og málið verður á dagskrá í forsætisnefnd á mánudag og þá væntanlega allt sem því tengist,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is um beiðni þingmanna um að siðanefnd fjalli um mál er varðar niðrandi ummæli þingmannahóps sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.

Níu þingmenn úr röðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri hreyfingarinnar ­­- græns framboðs og Pírata óskuðu fyrr í dag eftir því að forsætisnefnd tæki upp mál er varðar ljót og niðrandi ummæli þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins sem náðust á upptöku og fjallað hefur verið ítarlega um í fjölmiðlum í dag. Þingmennirnir óska eftir því að forsætisnefnd taki málið fyrir og vísi því til siðanefndar.

Steingrímur segir að til að byrja með komi málið inn á borð forsætisnefndar sem skoðar málið og ákveður í framhaldinu hvort það sé þess eðlis að ákveðið verði að vísa því til siðanefndar.

„Það er eitthvað sem skýrist í framhaldinu [hvort siðanefnd taki málið fyrir]. Þegar forsætisnefnd hefur tekið við formlegu erindi og erindi sem uppfyllir allar kröfur til þess að verða tekið fyrir þá er næsta skref að skoða hvernig forsætisnefnd vinnur með það,“ útskýrir Steingrímur og bætir við:

„Inn í það kemur mat á því hvort viðkomandi mál sé þess eðlis að við kjósum að skjóta því til hinnar ráðgefandi siðanefndar. Það er hluti af því ferli sem fer í gang ef mál er hafið sem siðareglubrotamál. Ef mál er ekki tækt eða ekkert er í því til að senda það til nefndarinnar þá fer það ekki lengra.“

Það er því ljóst að bíða verður niðurstöðu forsætisnefndar um það hvort málinu verður vísað til siðanefndar eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert