Hjartað í Fossvogi

Frá vinstri talið eru hér á myndinni Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri …
Frá vinstri talið eru hér á myndinni Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á bráðadeild, Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga, og Karl Andersen sem er yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Með vel þjálfuðu starfsfólki og góðum tækjum höfum við full tök á að sinna hjartasjúklingum. Að undanförnu höfum við sett nýja ferla og endurskipulagt vinnubrögð hér á deildinni, meðal annars í samræmi við nýja tækni, því bráða- og hjartalækningar þróast hratt,“ segir Ragna Gústafsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri á bráðadeild Landspítalans.

Næstkomandi laugardag, 1. desember, verður bráðamóttaka fyrir hjartasjúklinga hluti af starfsemi bráðadeildar í Fossvogi, en síðastliðin átta ár hefur þessi starfsemi verið á spítalanum við Hringbraut á svonefndri Hjartagátt. En héðan í frá verður fólki með til að mynda hjartsláttartruflanir og -óreglu, mæði, brjóstverki og annað slíkt sinnt í Fossvogi. Göngu- og dagdeildir hjartalækninga verða eftir sem áður við Hringbraut svo og legudeild hjartalækninga og skurðstofur.

Stjórnendur Landspítalans segja að í dag vanti um 100 hjúkrunarfræðinga til starfa og hafi sú staða skapað mikinn vanda í starfseminni. Um 40 pláss á legudeildum Landspítala séu lokuð af þessum sökum og er þetta ástæða þeirra breytinga sem nú eru gerðar á þjónustu við hjartasjúklinga.

„Þrátt fyrir allt gengur vel að manna bráðadeild. Í júlí síðastliðnum var Hjartagáttinni lokað tímabundið og sjúklingum beint á bráðamóttökuna og það gekk vel og því afréðum við að taka þetta skref nú. Þessu fylgir að læknum hér verður fjölgað um tvo og hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum um fimm á sólarhring,“ segir Ragna.

Sjá viðtal við Rögnu og Karl Andersen, yfirlækni Hjartagáttar, um breytingarnar á bráðaþjónustu fyrir hjartasjúklinga í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert