„Líklega á mörkum“ brota á siðareglum

„Að sjálfsögðu segi ég ekki af mér, af því ég …
„Að sjálfsögðu segi ég ekki af mér, af því ég hef ekki brotið af mér,“ sagði Gunnar Bragi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gunnar Bragi Sveinsson segir nauðgun alltof sterka lýsingu á því sem honum og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, fór í milli á dansleik sem var til umræðu meðal nokkurra þingmanna á Klaustri 20. nóvember. Þetta sagði hann í Kastljósi í kvöld, en vildi ekki fara nánar út í það sem gerðist.

Gunnar Bragi og samflokksmaður hans í Miðflokknum, þingmaðurinn Bergþór Ólason, létu báðir þau orð falla að Albertína hefði „reynt að nauðga“ þeim í samræðunum á Klausturbar umrætt kvöld, eins og heyrist á upptöku sem Stundin hefur undir höndum.

Þegar fréttamaður Kastljóss spurði hvort ekki væri um mjög alvarlega ásökun að ræða sagðist Gunnar Bragi ekki hafa verið að „saka neinn um neitt,“ heldur hafi þessu verið hent fram í fyllerísrausi.

Gunnar Bragi kvaðst ekki muna eftir atviki þar sem einn viðstaddra þingmanna á Klaustri hermdi eftir sel þegar talið barst að Freyju Haraldsdóttur. Hann sagði hana fyrirmyndarkonu í baráttu fatlaðra. Þegar fréttamaður spurði hvað hafi verið að þeim tók Gunnar Bragi undir. „Já, hvað var að okkur?“

„Að sjálfsögðu segi ég ekki af mér, af því ég hef ekki brotið af mér,“ sagði Gunnar Bragi aðspurður. Hann samsinnti því þó að pólitísk inneign hans hlyti að vera verulega löskuð. Þá kvaðst hann líklega vera á mörkum þess að hafa brotið siðareglur Alþingis.

Aðspurður hvort stjórnarandstaðan væri ekki splundruð sagðist Gunnar Bragi vona að þau gætu tekið málefnin út fyrir sviga „þó þau treysti okkur ekki persónulega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert