Afsögn hlýtur að koma til álita

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem ég sá koma fram í fyrradag fannst mér nóg, það sem síðan birtist í gær var yfirgengilegt. Þetta eru óboðleg ummæli og forkastanlegt hvernig menn velja að haga orðum sínum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um framgöngu þingmanna Miðflokks og Flokks fólksins á barnum Klaustur í samtali við mbl.is.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru samankomnir í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í morgun til að halda ríkisstjórnarfund og halda upp á eins árs starfsafmæli ríkisstjórnarinnar. Fjölmiðlum var boðið í kaffi og við það tilefni náði mbl.is tali af Sigurði Inga.

Sest ekki í dómarasæti

Aðspurður hvort hann telji að aðhafast eigi enn frekar í máli Klaustursþingmannanna svokölluðu og hvort hann telji eðlilegt að einhverjir þeirra eða allir segi af sér þingmennsku svaraði Sigurður: „Hver og einn þarf að gera það upp við sig hvort að menn telji sér stætt að halda áfram, hafi menn orðið uppvísir að mistökum eða slíkt. Ég ætla ekki að setjast í það dómarasæti fyrir hönd þessara aðila þessar umræður og yfirlýsingar sem þarna áttu sér stað voru bæði sorglegar og dapurlegar – hvernig menn velja að tala um samstarfsfélaga sína.“

„Það hlýtur að koma til álita [að segja af sér þingmennsku] hjá hverjum og einum að velta því fyrir sér í ljósi þess hvernig orðbragð menn hafa haft um einstaklinga og samstarfsaðila sína,“ bætti hann við.

Varðandi það hvort yfirvöld þurfi að rannsaka meinta spillingu við skipanir í stöður sendiherra var svar Sigurðar stutt og skýrt: „Það tel ég ekki.“

Ljóst er að ríkisstjórnin hafði mikið að ræða í dag enda stór mál verið í deigl­unni síðustu daga svo sem Klaustursmálið og staða WOW air. Þá verður 100 ára full­veldi Íslands fagnað á morg­un þar sem Full­veld­is­hátíð verður m.a. hald­in í Hörpu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert