UN Women fordæmir kvenfyrirlitningu Gunnars Braga

UN Women á Íslandi segja að fyrrverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi …
UN Women á Íslandi segja að fyrrverandi utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hafi skaðað orðspor Barbershop-verkfærakistunnar og HeForShe-hreyfingu UN Women. Mbl.is/ Árni Sæberg

Landsnefnd UN Women á Íslandi fordæmir þá kvenfyrirlitningu og hatursorðræðu sem Gunnar Bragi Sveinsson og fimm aðrir alþingismenn viðhöfðu á Klausturbar 20. nóvember síðastliðinn segir í yfirlýsingu sem var birt fyrir skömmu.

„Þau ummæli sem vitnað hefur verið til eru algjörlega óásættanleg og staðfesta hve mikið verk er enn óunnið í baráttunni fyrir kynjajafnrétti á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni. 

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, segir stjórn og starfsfólk UN Women á Íslandi harmi slegið og sérstaklega vonsvikið yfir því að fyrrverandi utanríkisráðherra, hafi með þessum hætti skaðað orðspor Barbershop-verkfærakistunnar og HeForShe-hreyfingu UN Women sem gengur ekki síst út á að uppræta niðrandi tal um konur.

Stella er nú við störf í Malaví við innleiðingu Barbershop-verkfærakistunnar í fyrsta sinn í Afríku við frábærar undirtektir að sögn UN Women í helsta samstarfslandi íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert