„Stórkostlegt rannsóknarefni“

Frá leiklestri á Klaustursupptökunum í Borgarleikhúsinu í kvöld þar sem …
Frá leiklestri á Klaustursupptökunum í Borgarleikhúsinu í kvöld þar sem fullt var út úr dyrum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullt var út úr dyrum í kvöld þegar leikhópur Borgarleikhússins las hluta af samtali þingmannanna sex sem sátu að sumbli á barnum Klaustri 20. nóvember. Með leiklestrinum vildi leikhúsið sinna hlutverki sínu að varpa ljósi á samfélagsleg málefni.

Fátt hefur verið um annað rætt síðustu daga en samtal sexmenninganna sem ræddu menn og mál­efni með hætti sem flest­um þykir óviðeig­andi, á sama tíma og fjárlög voru til umfjöllunar á þinginu. Á Klaustursupptökunum svokölluðu er meðal ann­ars rætt um út­lit stjórn­mála­kvenna, gáfnafar og and­lega eig­in­leika.

For­seti Alþing­is, Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, greindi frá því við upp­haf þing­fund­ar á Alþingi í dag að mál þing­mannanna væri komið í viðeig­andi far­veg hjá for­sæt­is­nefnd þings­ins sem mögu­legt siðabrota­mál.

Vildu setja málið í samhengi fyrir almenning

Bergur Þór Ingólfsson, sem leikstýrði leiklestrinum, segir að tilgangurinn með leiklestrinum hafi verið að setja fréttir síðustu daga í samhengi fyrir almenning. „Þetta eru fréttir út um allt með alls konar fyrirsögnum og fólk kemst kannski ekki í gegnum alla miðla og fréttirnar héldu svo áfram að koma eftir að við lokuðum handritinu,“ segir Bergur, en handritið var alls fjörutíu síður.

Um leiklesturinn sáu Edda Björg Eyj­ólfs­dótt­ir, Sigrún Edda Björns­dótt­ir, Unn­ur Ösp Stef­áns­dótt­ir, Þuríður Blær Jó­hanns­dótt­ir, Þór­unn Arna Kristjáns­dótt­ir og Hilm­ar Guðjóns­son og ákvað Bergur að snúa kynjahlutverkunum við, meðal annars til þess að fjarlægja þetta persónunum sjálfum sem eiga þarna í stað, það er þingmönnum Miðflokksins og Flokks fólksins.

Tilgangurinn með leiklestrinum var að setja fréttir síðustu daga í …
Tilgangurinn með leiklestrinum var að setja fréttir síðustu daga í samhengi fyrir almenning. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir sem á hlýddu ráku oftar en ekki upp hlátur, sem kann að vekja furðu þar sem niðrandi ummæli eru fyrirferðamikil í samtalinu. Bergur segir það hins vegar eðlilegt. „Hlátur er náttúrulegt viðbragð við alls konar aðstæðum en við á sviðinu reyndum að einbeita okkur að því að flytja þennan texta.“  

Hlutverk leikhússins að bregðast við 

Hlutirnir hafa þróast hratt síðustu daga og segir Bergur að leikhópurinn hafi spurt sig fyrir helgi hvort það væri tímabært að lesa upp samtalið. „En þar sem við erum að setja fréttirnar í ákveðið samhengi, í ákveðna tímalínu um það hvernig þetta samtal átti sér stað, er ég algjörlega viss um það að við sem leikhús áttum að bregðast við og setja þetta í samhengi.“

Að leiklestrinum loknum fóru fram pallborðsumræður þar sem fræðimenn og fjölmiðlamenn ræddu samtalið og orðræðuna í kringum það síðustu daga. „Það er augljóst að þeir fræðimenn sem voru við pallborðið eru sammála um það að þetta sé stórkostlegt rannsóknarefni, bæði í pólitík, sögu, feminískum fræðum, kynjafræðum og mann- og félagsfræði, að ná þessu samtali sem ónefnd manneskja ákvað að taka upp á bar og deila með okkur hinum,“ segir Bergur.

Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri ásamt leikkonunum Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Unni …
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri ásamt leikkonunum Sigrúnu Eddu Björnsdóttur, Unni Ösp Stefánsdóttur og Þórunni Örnu Kristjánsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fulltrúar hverra eru þeir sem tala svona?

Hann er hins vegar sannfærður að eftir kvöldið standi hann, og samfélagið allt, uppi með fleiri spurningar en svör. „En við vitum meira.“ Bergur er samt sem áður ekki viss um hvernig umræðan muni þróast næstu daga.

„Við erum að fjalla um fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands þannig að þarna er fólk sem haldið hefur á mestu völdum í landinu að tala saman um annað fólk sem haldið hefur á mestum völdum í landinu um tíma. Það hlýtur að varða okkur öll, hvernig kaupin ganga á eyrinni, hvernig hrossakaupin eru þar, auk talsmátans sem er skelfilegur innan þessa þrönga hóps. Ég er að vonast til þess að verði einhver vakning, að fólk fari að vanda sig betur,“ segir Bergur.

Eitt er þó víst að hans mati. „Ég held að fæstir vilji vera þetta fólk í þessu „leikriti“. Svo getum við spurt okkur áfram, í þessu fulltrúalýðræði, fulltrúar hverra eru þeir sem tala svona? Hver vill hafa þá áfram sem sína fulltrúa sem tala niður til kvenfólks, fatlaðra og niður til allra annarra en þeirra sjálfra?“  

Löng röð myndaðist við innganginn á Litla svið Borgarleikhússins í …
Löng röð myndaðist við innganginn á Litla svið Borgarleikhússins í kvöld. Einnig var streymt frá leiklestrinum í anddyri leikhússins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri ásamt leikurunum Hilmi Guðjónssyni og Þuríði …
Bergur Þór Ingólfsson leikstjóri ásamt leikurunum Hilmi Guðjónssyni og Þuríði Blæ Jóhannsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert