Trúnaðarráð með Klausturmálið til skoðunar

Trúnaðarráð Miðflokksins hefur fundað um Klausturmálið og er þeim skylt …
Trúnaðarráð Miðflokksins hefur fundað um Klausturmálið og er þeim skylt að vísa einstaklingum úr flokknum sem sýna hegðun sem sem leiðir af sér vanlíðan annarra. mbl.is/Þorsteinn Friðrik

Trúnaðarráð Miðflokksins hefur fundað vegna Klausturmálsins, þetta staðfestir Bjarney Grendal Jóhannesdóttir, annar tveggja fulltrúa í trúnaðarráði Miðflokksins. Ráðinu er skylt að taka til skoðunar „samskiptavanda innan Miðflokksins“ og að vísa einstaklingum umsvifalaust úr flokknum gerist þeir brotlegir gegn reglum hans, að því er segir í lögum Miðflokksins.

„Við höfum alveg rætt saman og höfum fundað, annars vil ég ekkert segja neitt meira um það,“ svarar Bjarney um hvort ráðið hafi tekið til skoðunar Klaustursmálið.

Fram kemur í fimmta lið annarrar greinar laga Miðflokksins að „félagsmenn í Miðflokknum skulu gæta virðingar í orðum og framkomu í flokksstörfum sínum gagnvart samflokksmönnum og öðrum. Sama gildir gagnvart þriðja aðila þegar flokksmenn koma fram í nafni Miðflokksins eða eru taldir gera það.“

Er þetta ákvæði ítrekað í kafla um trúnaðarráð og samskipti og segir fyrsti liður níundu greinar að „flokksmenn hafna hvers kyns hegðun sem sem leiðir af sér vanlíðan annarra. Dæmi um slíka hegðun er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti eða annað ofbeldi [...] Komi slík mál upp skal tekið á þeim í samræmi við landslög, lög og reglur flokksins.“

Geta vísað fólki úr flokknum

Hugsanleg brot gegn ákvæðum flokksins eiga samkvæmt reglum að vera skoðuð af trúnaðarráði, en þar sitja þau Bjarney Grendal Jóhannesdóttir og Guðmundur Þorgrímsson.

„Komist trúnaðarmenn að þeirri niðurstöðu að flokksmaður hafi brotið gegn reglum þessum skal honum umsvifalaust vikið úr flokknum,“ segir í lögum Miðflokksins.

Spurð hvort Klaustursmálið sé í skoðun hjá trúnaðarráði á grundvelli reglna Miðflokksins segir Bjarney: „Eins og ég segi ætla ég ekki að tjá mig meira um það. Við höfum málið til skoðunar og skoðum út frá öllum hliðum. Það er held ég bara á flestum vígstöðum flokksins verið að tala saman og reyna að ráða ráðum sínum og fólk þarf kannski að fá tíma til þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert