Helstríð og dauðateygjur feðraveldisins

Þorgerður Þorvaldsdóttir flutti ávarpið Löglegt en siðlaust.
Þorgerður Þorvaldsdóttir flutti ávarpið Löglegt en siðlaust. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þessu stríði karlmennskunnar getur ekki lokið nógu fljótt,“ sagði Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í alþjóðasamskiptum, á málþinginu Minna hot í ár sem fram fór í Veröld – húsi Vigdísar, í dag.

Silja Bára sagði Klausturmálið dæmi um helstríð og dauðateygjur feðraveldisins og minnti á að hefðir væru sterkastar þegar þær væru við það að bresta.

Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og Kvenréttindafélag Íslands stóðu fyrir málþinginu, sem fjallaði um kvenfyrirlitningu, þöggun og tvískinnung í íslenskri stjórnmálaumræðu. Þar var meðal annars fjallað um hæfni feðraveldisins til þess að laga sig að nýjum tímum, birtingarmyndir kynjafordóma, fötlunarfyrirlitningu og hatursorðræðu stjórnmálamanna.

Silja Bára var meðal frummælenda á málþinginu, en rauði þráðurinn í erindum dagsins var plássið sem konur fá, eða fá ekki, innan stjórnmálanna og ógnin sem feðraveldinu stafar af konum. Ragnheiður Kristjánsdóttir, dósent í sagnfræði, minnti sem dæmi á það að í hvorki í Aðalbyggingu Háskóla Íslands né í Alþingishúsinu hafi verið gert ráð fyrir konum því þar voru engar kvennasnyrtingar.

Orð eru til alls fyrst

Nokkrir frummælendur gagnrýndu viðbrögð við Klaustursmálinu, og sagði Þorgerður Þorvaldsdóttir, doktor í kynjafræði, að forseti Alþingis hafi gefið sexmenningunum fjarvistarsönnun með því að segja ummæli þeirra sögð „í óráðshjali“. Þá benti hún á að orð væru til alls fyrst, því að hatursglæpi megi alltaf rekja til hatursorðræðu.

Henry Alexander Henrysson, aðjúnkt við sagnfræði- og heimspekideild HÍ, velti upp spurningu sem margir á athugasemdakerfum íslensku vefmiðlanna hafa velt fyrir sér í kjölfar Klaustursmálsins. „Er bannað að segja það sem manni finnst?“, en Henry sagði þetta sýna ákveðinn skort á skilningi í íslensku samfélagi.

Skyldur kjörinna fulltrúa margvíslegar

Sagði hann að flestum störfum fylgdu hlutverk og tækifæri, skurðlæknar mættu stinga hnífum í fólk, en að réttindum fylgdu skyldur, og að skyldur kjörinna fulltrúa væru margvíslegar. Þeim bæri meðal annars, og einna helst, skylda til þess að tileinka sér jafnréttissjónarmið. Henry sagði miður að lítið væri hægt að gera í orðræðunni sem þingmennirnir viðhöfðu, en að mikilvægt væri að auka skilning.

Hátíðarsalurinn í Veröld var þétt setinn.
Hátíðarsalurinn í Veröld var þétt setinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Að erindum loknum tóku við pallborðsumræður þeirra Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, Þorsteins Víglundssonar, alþingismanns og fyrrverandi jafnréttisráðherra, Helgu Völu Helgadóttur, formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar Alþingis, Silju Daggar Gunnarsdóttur alþingismanns og Ingu Bjarkar Margrétar Bjarkadóttur, formanns framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og baráttukonu fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Líf og limir fatlaðra í hættu

„Líf okkar og limir eru í hættu þegar Alþingismenn leyfa sér að tala svona,“ sagði Inga Björk og benti á að ummæli þingmannanna væru ekki bara orð í augum fatlaðs fólks, því þarna færi fólk sem réði því hvaða þjónustu fatlað fólk fengi.

Hún sagði mikilvægt að ummælin og orðræðan hafi komið upp á yfirborðið, enda sé þetta í fyrsta sinn sem samfélagið allt taki undir að ekki sé í lagi að tala svona um fatlað fólk. „Þetta er í fyrsta sinn sem samfélagið tekur upp hanskann fyrir Freyju [Haraldsdóttur].“

Frá pallborðsumræðum.
Frá pallborðsumræðum. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert