„Hvílíkt bull“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári

Ég hef fengið mig fullsaddan af því að í hvert sinn sem útlendinga ber á góma stökkvi til popúlistar og valdhyggjusinnar, veifi fána allra Íslendinga og berji sér á brjóst fyrir að standa vörð um sjálfstæði Íslands. Hvílíkt bull.“

Þetta sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag, þar sem hann brást við ræðu sem Jón Þór Þórðarson, varaþingmaður Miðflokksins, flutti í gær þar sem hann varaði við undirritun Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um fólksflutninga sem til stendur að undirrita eftir helgi en ýmis ríki hafa lýst því yfir að þau ætli ekki að undirrita hann.

„Nú á greinilega að búa til og næra þá fáránlegu hugmynd að sjálfstæði Íslands stafi ógn af Sameinuðu þjóðunum,“ sagði Helgi Hrafn. „Þetta samkomulag snýst um að takast heildstætt á við raunveruleg vandamál sem fylgja miklum fólksflutningum innan ramma laga og aðstæðna hvers ríkis, eins og kemur skýrt fram í samkomulaginu þegar það er lesið. Greinilega er þörf á því að ræða þetta meira hér, get ég þó tekið undir.“

Gagnrýnendur mættu kynna sér efnið í stað þess „að misnota sjálfstæðiskennd og ættjarðarást Íslendinga til þess eins að marka sér pólitíska stöðu. Það að framleiða innstæðulausan ótta á kostnað mikilvægra verkefna við úrlausn erfiðra vandamála er ekki vörður um sjálfstæði Íslands og allra síst frjálslynd lýðræðisgildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert